Fyrstu viðbrögð við vatnstjóni
Slysahætta vegna vatnsleka
Heitt vatn sem lekur getur verið allt að 80 gráða heitt, sérstaklega í eldri húsum. Farið því varlega ef heita vatnið lekur.
Hvers vegna verða vatnstjón
Algengasta ástæða þess að vatn skemmir er að lagnir, pakkningar, síur eða ofnar gefa sig t.d. á baði eða í eldhúsi. Mörg vatnstjón eru vegna skorts á viðhaldi eða vegna þess að rör ryðga í sundur. Hér gildir það sama og um margt annað, það þarf að endurnýja búnað reglulega og ekki síst þarf fagaðila til að sjá um uppsetningu og frágang. Það borgar sig ekki til lengri tíma að spara þar sem vatn kemur við sögu. Reynsla okkar er að þarf að láta yfirfara lagnir og tengingar t.d. undir bað- eða eldhúsvöskum á sirka 10 ára fresti.
Þrennt er mikilvægt:
- Vertu viss um hvar skrúfa á fyrir kalt og heitt vatn
- Merktu kranana
- Færðu dót frá vatnsinntaki til að tryggja aðgengi.
Hvar er vatnsinntakið
Flest vatnsinntök eru staðsett út í bílskúr eða sérstöku rými t.d. í fjölbýlishúsum. Það þarf að vera hægt að komast að krönum til að skrúfa fyrir og því æskilegt að fjarlægja allt dót frá.
Merkjum krana
Ef vatn fer að leka þá skipta skjót viðbrögð öllu máli. Þess vegna hvetjum við ykkur til að fá fagaðila til að merkja kranana þar sem skrúfa á fyrir heitt og kalt vatn. Hægt er að fá merkingar hjá Sjóvá eða kaupa þær í verslunum sem selja lagnaefni.
Svo er bara að sýna fjölskyldumeðlimum hversu vel kranarnir eru merktir og hvar þeir eru þannig að allir viti hvar á að skrúfa fyrir.
Vatnsskynjari
Vatnsskynjarar auka öryggi. Algengt er að heimilistæki séu tengd beint við vatn s.s. ísskápar með klakavélum, uppþvottavélar og kaffivélar. Ef tæki eða tengingar þeirra gefa sig þá er hætt á að vatn renni óhindrað á gólfefni og sökkla innréttinga. Vatnsskynjari gefur frá sér hljóð ef vatn fer undir hann og hann er líka hægt að tengja beint við öryggiskerfi hússins.
Það margborgar sig að láta fagaðila tengja vélar sem tengjast beint í vatn. Það eru til öryggislokar sem hægt er að setja á vatnslagnir en það lágmarkar líkur á vatnstjóni.
Niðurföll
Innandyra er gott að hreinsa gólfniðurföll í baði og sturtu reglulega. Í gólfniðurföll safnast óhreinindi sem smátt og smátt stífla.
Utandyra þarf að hreinsa rennur og niðurföll við hús þannig að þau taki vel við vatni yfir veturinn. Við könnumst öll við að klaki og snjór bráðnar á nokkrum klukkutímum þegar snögg hitnar í veðri eða í kjölfar þess að það fer að rigna yfir veturinn. Þá myndast aðstæður sem oftar en ekki verða til þess að vatn utan frá lekur inn í hús og veldur vatnstjóni. Reynsla okkar er sú að það þarf ekki nema sól og snjóbráð í stutta stund þegar snjór er á þökum til þess að vatn lek inn.
Besta leiðin til þess að fyrirbyggja slík tjón er að tryggja að niðurföll og þakrennur virki þegar snjór og klaki bráðnar hratt og vatnselgur myndast:
- Hreinsum klaka, snjó, sand og lauf frá niðurföllum og þakrennum.
- Brjótum klaka og mokum snjó frá niðurföllum í götu og í innkeyrslu
- Hreinsum snjó og klaka af svölum en gætum að bílum og gangandi vegfarendum.
- Kíkjum á inngang, veggi og glugga á neðri hæð, þar gæti líka þurft að moka frá snjó.
Húsið að utan
Það er gott að taka skoðunarhring um húsið á vorin og kanna hvort eitthvað þarfnist endurnýjunar eða viðgerðar. Sprungur í útveggjum geta leitt til þess að vatn eigi greiða leið inn húsið og valdi þannig skemmdum. Skoðið einnig frágang við dyra- og gluggaumbúnað og ástand þak eða þakkanta.
Baðherbergi
Algengt er að vaskar séu felldir inn í innréttingar og að skúffur séu undir vöskum. Þá er ávallt hætta á að stöðugt sé verið að koma við lagnir vasksins sem getur orðið til þess að þær gefa sig fyrr. Við getum hins vegar reglulega skoðað lagnir við vaska til að fullvissa okkur um að allt sé eins og það á að vera. Ávallt er hætta á að sturtuklefar leki þegar þeir eru komnir til ára sinna. Því er gott að, skoða yfirfara og endurnýja þéttingar reglulega sem og fara yfir samskeyti vaska við borð eða veggi.
Er hægt að koma í veg fyrir raka
Æskilegt er að rakastig innandyra sé 30-50%. Of hátt eða of lágt rakastig getur haft neikvæð áhrif á híbýli og þægindi þeirra sem þar dvelja. Yfir árið sveiflast loftraki verulega. Utandyra getur hann farið frá u.þ.b. 20% á veturna yfir í allt að 60% að sumarlagi. Margt hefur áhrif á inniloft, t.d. raki og ónóg loftun og svo getur heitt loft innihaldið meiri raka en kalt loft.
Við mat á rakastigi innandyra er gagnlegt að nota rakamæli en þeir fást í byggingavöruverslunum. Máli skiptir að lofta vel þar sem vatnsnotkun er mikil s.s. á baðherbergi, þvottahúsi og eldhúsi. Góðar upplýsingar og leiðbeiningar um raka og myglu í híbýlum hafa verið gefnar út af heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.
Hvers vegna skipta kranar, slöngur, síur og pakkningar máli
Vegna þess að þessir hlutir endast ekki til eilífðar og þarf því að endurnýja reglulega. Þar sem sírennsli er í klósetti eða úr krana er meiri hætta á að kalda vatnsleiðslan tærist smátt og smátt. Slöngur þvottavéla fúna með tímanum og því þarf að skipta um þær reglulega.
Hvenær setjum við uppþvotta- eða þvottavélina af stað
Margir setja uppþvotta- eða þvottavélina af stað áður en farið er að heiman á morgnanna eða áður en farið er að sofa. Við mælum ekki með því. Ástæðan er einföld, þessi tæki eru tengd beint í vatn. Ef eitthvað gefur sig þá er enginn við til að bregðast strax við og tjónið getur orðið mikið.
Þú getur náð í okkur allan sólarhringinn ef þú lendir í tjóni
Stundum þarf að bregðast hratt við um miðja nótt og þá gerum við það
Utan opnunartíma nærðu í okkur í síma 440-2424. Hér getur þú tilkynnt um vatnstjón.