Brunavarnir

Það er afar mikilvægt að sinna brunavörnum heimilisins vel. Dæmin sýna að hægt er að koma í veg fyrir bruna á heimilum með því að koma upp einföldum búnaði og fara reglulega yfir hann.

Þannig tryggjum við öryggi fjölskyldunnar og komum í veg fyrir tjón á heimili okkar.

Reykskynjarar

Reykskynjarar eru eitt einfaldasta og áhrifaríkasta öryggistækið sem þú getur sett upp hjá þér.

Til eru tvær tegundir af reykskynjurum:

  • Jónískir reykskynjarar bregðast við reyk og henta á flest rými, nema eldhús eða þvottahús, þar sem þeir eru næmir fyrir raka og hita.
  • Optískir reykskynjarar bregðast við reyk en eru ekki eins næmir fyrir öðrum breytingum.

Reykskynjara á að setja sem næst miðju lofts og aldrei nær vegg eða ljósi en 30 cm. Þegar búið er að setja reykskynjarann upp þarf að kanna hvort hann virki.

Mælt er með að hafa einn reykskynjara í hverju rými hússins. Það er sérstaklega mikilvægt að hafa reykskynjara í þeim herbergjum sem verið er að hlaða raftæki, s.s. síma eða spjaldtölvur. Einnig þarf að vera reykskynjari í bílskúr og mælum við með að hann sé samtengdur við reykskynjara í íbúðinni.

Mikilvægt er að fara yfir hvort reykskynjarar heimilisins virki a.m.k. fjórum sinnum á ári. Reykskynjarar endast í um 10 ár en misjafnt er hversu oft þarf að skipta um rafhlöðu í þeim.

Flóttaleiðir og flóttaáætlun

Það er nauðsynlegt að fjölskyldan geri áætlun um hvernig á að yfirgefa heimilið ef eldur kemur upp.

  • Best er að allt heimilisfólk taki þátt í að gera áætlunina og æfi hana síðan.
  • Brýnið fyrir ungum börnum að þau megi ekki fela sig ef það kemur upp eldur.

Við gerð flóttaáætlunar þarf að muna að:

  • Tvær greiðar leiðir eiga að vera út úr íbúðinni og húsinu. Settu upp neyðarstiga eða kaðal ef þess þarf.
  • Allir þurfa að vita að þeir eigi að fara út um leið og elds verður vart og að hringja eigi í 112 eins fljótt og hægt er.
  • Ákveða þarf stað fyrirfram þar sem allir hittast þegar út er komið.
  • Munið að aldrei má nota lyftur í eldsvoða.

Slökkvitæki

Slökkvitæki til heimilisnota henta á mismunandi tegundir elds.

  • Duftslökkvitæki: eru öflug og áhrifarík á eld í föstum efni (s.s. húsgögnum og innréttingum), olíu og gasi og henta því mjög vel á heimilum og í bílinn.
  • Léttvatnstæki: Eru líka góð slökkvitæki en hentar alls ekki á gas.

Slökkvitæki á að festa á vegg með tilheyrandi búnaði þannig að þægilegt sé að taka það af veggnum. Setja skal tækin upp við flóttaleið og sem næst útgöngum. Þau eiga að vera sýnileg svo allir viit hvar þau eru.

Yfirfara þarf slökkvitæki að minnsta kosti árlega en upplýsingar um viðhald og endurnýjun eiga að vera á tækinu sjálfu.

Eldvarnateppi

Töluverð eldhætta fylgir notkun á olíu og feiti í eldhúsum. Því er mikilvægt að hafa eldvarnateppi þar.

Eldvarnarteppi á að setja upp á sýnilegum og aðgengilegum stað í eldhúsi. Þó ekki svo nálægt eldavél að erfitt verði að ná til þess ef eldur kemur upp.

Ef eldur kemur upp:

  • Skvettið alls ekki vatni á eldinn, það veldur sprengingu. Ekki reyna að fara út með logandi pott/pönnu.
  • Leggið eldvarnateppi eða pottlok yfir logandi pott/pönnu og þéttið þar til eldurinn hefur slokknað. Verjið hendur gegn hitanum eins og hægt er.
  • Slökkvið undir hellunni ef þið getið.

Hvaða hættum á ég að vera vakandi fyrir?

Flesta bruna á heimilum má rekja til rafmagns eða rafmagnstækja. Einnig þarf að fara varlega við notkun á gasi og kertum.

Rafmagnstæki

  • Mikilvægt er að slökkva á rafmagnstækjum strax eftir notkun; eldavélum, sléttujárnum, straujárnum o.s.frv. Við mælum líka með að straumur sé rofinn á sjónvarpstækjum þegar heimilið er yfirgefið í lengri tíma, t.d. með að slökkva á fjöltengi.
  • Leggið aldrei eldfim efni, s.s. pizzakassa, ofan á helluborð, þó að það sé slökkt á því.
  • Við mælum með að þvottavélar, þurrkarar og uppþvottavélar séu ekki hafðar í gangi þegar enginn er heima eða allir eru sofandi. Hreinsa þarf ló sem safnast í þurrkara.
  • Alls ekki ofhlaða fjöltengi með mörgum rafmagnstækjum, það skapar aukna brunahættu.
  • Ekki hafa tæki eins og síma, tölvur eða spjaldtölvur á mjúku undirlagi, eins og í rúmi eða sófa. Það skapar hættu á ofhitnun.
  • Það er mjög mikilvægt að hlaða rafmagnshjól á réttan hátt til að draga úr brunahættu:
    • Aldrei hlaða rafhlöðuna yfir nótt eða án eftirlits, þar sem ofhleðsla eða gallaðar rafhlöður geta leitt til ofhitnunar og jafnvel eldsvoða.
    • Notaðu alltaf upprunalegan hleðslubúnað sem framleiðandinn mælir með, og forðastu að hlaða hjólið á eldfimum stöðum eins og í lokuðum geymslum með brennanlegu efni í kring.
    • Einnig er skynsamlegt að hlaða á hörðu, óbrennanlegu yfirborði og tryggja næga loftræstingu.

Rafkerfið

  • Ef einhver vafi leikur á að rafkerfið sé í lagi þarf að fá löggildan rafverktaka til að kanna málið.
  • Gamlar og illa farnar rafmagnstöflur geta verið hættulegar, ekki síst ef þær eru úr tré eða staðsettar í skápum. Skýrar merkingar þurfa að vera í rafmagnstöflum.
  • Innstungur (tenglar) eiga að vera vel festar og rafmagnsklær eiga að sitja tryggilega í þeim.

Gas

  • Þar sem gas er notað innandyra þarf að vera gasskynjari. Festa skal hann á sökkul í eldhúsi og í sambærilegri hæð í öðrum rýmum.
  • Skipta þarf um slöngur á um fimm ára fresti og mælum við með að þá sé annar búnaður einnig yfirfarinn.
  • Mikilvægt er að geyma gaskúta á vel loftræstum stöðum. Ef gas er geymt í lokuðum skáp þarf að tryggja loftræstingu bæði ofan til og viðbotn. Æskilegast er að geyma gaskúta utandyra í læstum og merktum skáp.
  • Fylgist vel með þegar verið er að grilla og bregðist við áður en mikill eldur kemur upp í grillinu. Gætið þess að grilla ekki of nærri timburvegg eða glugga með stórum rúðum. Skrúfið fyrir gasið að lokinni notkun.

Kerti og kertaskreytingar

  • Festið kertin vel á stöðuga undirstöðu sem ekki er eldfim.
  • Ekki hafa kerti of nærri hitagjafa, eins og ofni eða sjónvarpi. Logandi kerti má aldrei standa ofan á raftæki.
  • Ekki hafa kerti nálægt efnum sem getur kviknað í.
  • Aldrei fara frá logandi kerti og ekki láta börn komast í eldfæri eða logandi kerti.