Öryggi hjól­reiða­fólks

Hjólreiðar njóta sívaxandi vinsælda bæði sem íþrótt og samgöngumáti. Aukin vitund og fræðsla um öryggi á hjólinu getur dregið úr slysum og bætt upplifun af hjólreiðum. Huga þarf að ýmsum öryggisatriðum áður en lagt er af stað.

Hjólahjálmur

  • Notið ávallt hjólahjálm sem uppfyllir viðurkennda öryggisstaðla
  • Hjálmaskylda er fyrir börn yngri en 16 ára samkvæmt umferðarlögum nr. 77/2019 sem tóku gidli 1. janúar 2020

Sýnilegur klæðnaður

Klæðist skærum litum eða endurskini til að sjást betur í umferðinni, sérstaklega í myrkri eða slæmu veðri

Hæfileg stærð reiðhjóls

Gott er að gæta þess að hjólið sé af hæfilegri stærð og í góðu standi með réttum loftþrýstingi í dekkjum og vel stilltum bremsubúnaði

Viðhald og búnaður

  • Framkvæmið reglulegt viðhald á hjólinu, þar með talið bremsum, keðju og ljósum
  • Hafið góð ljós bæði að framan og aftan á hjólinu
  • Notaðu bjöllu til að gera öðrum viðvart um nærveru þína
  • Gott er að hafa meðferðis búnað fyrir neyðartilvik, t.d. lítinn verkfærakassa með varaslöngu og pumpu fyrir smávægilegar viðgerðir

Hjólaleiðir

  • Veljið öruggar leiðir, best er að nota hjólastíga eða götubrautir ætlaðar hjólreiðafólki þegar það er mögulegt
  • Ef hjólastígur er samsíða gangstétt eða göngustíg skal að jafnaði notast við hjólastíga
  • Aðeins er heimilt að hjóla á gangstétt eða göngustíg á hraða sem er ekki meiri en eðlilegur gönguhraði
  • Í skipulögðum hópferðum er gott að hjóla í hópum þegar það er hægt þar sem það getur aukið sýnileika og öryggi

Snjalltæki

Í umferðarlögum eru ákvæði er varða snjalltæki og bann við notkun þeirra gert skýrt jafnt fyrir ökumenn vélknúinna ökutækja sem og fyrir hjólreiðamenn. Ekki er leyfilegt að nota snjalltæki þegar hjólað er samanber 57. grein umferðarlaga.

Pössum upp á bilið!

  • Þegar ekið er fram úr reiðhjóli eða léttu bifhjóli skal hliðarbil vera að lágmarki 1,5 metrar, samanber 23. grein umferðarlaga: Sá sem ekur fram úr öðru ökutæki skal hafa nægilegt hliðarbil milli ökutækis síns og þess sem ekið er fram úr. Sé ekið fram úr reiðhjóli eða léttu bifhjóli skal hliðarbil að lágmarki vera 1,5 metrar.
  • Ökumenn eiga að veita hjólandi forgang þegar hjólarein er þveruð, ökumaður sem ætlar að beygja þvert á hjólarein skal veita umferð hjólreiðamanna á reininni forgang