Fjallgöngur

Í upphafi skyldi endinn skoða. Góður undirbúningur er lykillinn að farsælu ferðalagi. Fjallgöngur eru frábær leið til að sameina útiveru og hreyfingu en mikilvægt er að vera vel undirbúin áður en lagt er af stað.

Undirbúningur

  • Veldu gönguleið sem hentar getu þinni og reynslu
  • Kynntu þér leiðina vel fyrirfram og taktu mið af lengd, hæðarhækkun og erfiðleikastigi
  • Athugaðu veðurspá fyrir göngudaginn og gerðu ráð fyrir að breyta áætlunum ef veðrið versnar
  • Láttu einhvern vita af áætlunum þínum, hvaða leið þú ætlar að fara og hvenær þú hyggst koma aftur
  • Gott er að hala niður Safe Travel appinu áður en lagt er af stað en þar má, auk þess að skoða veður og færð á vegum, senda staðsetningu og óska eftir aðstoð í neyðartilvikum

Búnaður

  • Klæddu þig í lög af fatnaði sem andar vel og heldur hita. Gott er að hafa ullarfatnað næst líkamanum,  vatnsheldan jakka og góða gönguskó
  • Gott er að hafa meðferðis kort, áttavita og/eða GPS-tæki, vasaljós með aukabatteríum, sjúkrapúða/-kassa, nesti, vatn, og neyðarflautu
  • Gættu þess að bakpokinn sé ekki of þungur en innihaldi allt sem þú þarft fyrir gönguna

Góð ráð og öryggi

  • Gott er að halda stöðugum gönguhraða, ganga í jöfnum takti og forðast að flýta sér um of til að viðhalda nægri orku
  • Taktu reglulega hlé til að hvílast, nærast og halda orkunni uppi
  • Hafðu vatn og næringaríkt nesti meðferðis í lengri ferðum
  • Mikilvægt er að fylgjast vel með merkingum á leiðinni og vera meðvituð um umhverfið til að halda áttum og koma í veg fyrir að villast
  • Gott er að fara í göngur með öðrum m.a. til að geta veitt hvort öðru aðstoð ef eitthvað kemur upp á

Viðbrögð í neyðartilvikum

  • Það eykur öryggi til muna að vera kunnug grunnatriðum í fyrstu hjálp og að hafa viðeigandi búnað meðferðist til að bregðast við minniháttar meiðslum
  • Mikilvægt er að vita hvernig eigi að gefa neyðarmerki ef þú lendir í vandræðum, til dæmis með flautu eða ljósmerkjum
  • Í Safe Travel appinu er hægt að senda staðsetningu og óska eftir neyðaraðstoð en í neyðartilvikum ætti einnig að hringja í 112