Gasskynjarar
Alls staðar þar sem gas er notað er eindregið mælt með að settur sé upp gasskynjari. Þetta á við heimili, sumarhús, fellihýsi, hjólhýsi og húsbíla.
Staðsetning
Gas er þung lofttegund og leitar því niður og skal gasskynjari vera sem næst gólfi, t.d. á sökkul innréttinga. Við mælum með að endurnýja gasskynjara á 5 ára fresti. Við mælum ennfremur með að fá aðstoð sérfræðinga til að koma skynjaranum fyrir og velja alltaf viðurkenndan búnað
Er gas heima hjá þér Hægt er fá merkingar til að auðkenna að gas sé í húsinu. Það er gert til þess að t.d. slökkvilið geti brugðist rétt við. Límmiðinn er settur á hurðarkanta útihurða eða geymslur. Merkið er hægt að fá hjá slökkviliðum eða á bensínstöðvum.
Viðbrögð við gasleka - Engin eldur
Ef gaslykt finnst en eldur hefur ekki komið upp:
- Varið fólk við hættunni
- Skrúfið fyrir gastæki ef þið getið
- Sláið út rafmagni
- Varið ykkur á neistamyndun
- Opnið glugga og dyr, loftið út
- Byrgið niðurföll í gólfum
- Tilkynnið gasleka til 112
- Látið þjónustuaðila vita ef um bilun er að ræða
Viðbrögð við gasleka - Eldur
Ef eldur hefur komið upp hringið í 112 og hlítið þeim fyrirmælum sem þar eru gefin. Ef ekki fást skýr fyrirmæli frá þessum aðilum ber að fylgja eftirfarandi leiðbeiningum:
- Skrúfið fyrir allt gasstreymi, bæði frá geymsluhylkjum og gastækjum.
- Sé ekki unnt að loka fyrir gasið getur þurft að láta það brenna upp. Beinið þá vatnsbunu að gaskútum, gasleiðslum og öðrum gasbúnaði sem næstur er eldinum og einnig að brennanlegum flötum og innanstokksmunum sem eru í hættu vegna loga eða geislunar.
- Ekki reyna að slökkva loga frá gastækjum.
- Við minni háttar gasbruna má nota duft- eða kolsýrutæki. Dufttæki eru áhrifaríkari. Í báðum tilfellum skal sprauta slökkviefninu inn í gasstrauminn við rætur eldsins.
Gaseldavélar
Látið eingöngu fagaðila sjá um að leggja gaslagnir að eldavél og yfirfara gastæki reglulega. Til er búnaður sem lokar fyrir gasstreymi ef gaslögn gefur sig sem og logavari sem lokar fyrir gas ef logi slokknar við notkun. Mælt er með að skipta reglulega um slöngur a.m.k. á 5 ára fresti og alltaf góð regla að láta yfirfara gastæki t.d. gaseldavélar reglulega.
Langbest er að geyma gaskútinn úti í rými sem er lokað en vel loftræst. Margir eru með útiskápa undir gaskúta og gott er að geta læst þeim. Ef ekki er hægt að geyma gaskúta úti þá er góð regla að hafa eingöngu einn í einu í eldhúsinnréttingunni. Setjið kútinn í neðri skáp, hámark einn metra frá eldavél. Hann verður að standa uppréttur og vera á stöðugu undirlagi.
Gasgrill
Það er gott að staðsetja ekki gaskútinn beint undir grillinu heldur til hliðar við það á sléttu undirlagi þannig að hann velti ekki. Venjum okkur á að skrúfa fyrir lokan þegar gas er ekki í notkun í stað þess að slökkva bara á brennurum.
Til þess að vera viss um að tengingar leki ekki (ef gas lekur þá getur kviknað í) er hægt að setja sápuvatn á slönguna. Ef litlar sápukúlur myndast við tengingu þá lekur gas og tími til að fara yfir tengingar eða skipta um slöngu.
Gas í útilegum
Mikil gasnotkun fylgir því að ferðast með tjaldvagn, fellihýsi og hjólhýsi. Við mælum eindregið með að gasskynjarar séu settir upp í fellihýsum. Til eru 12V gasskynjarar sem gefa frá sér hljóð ef gas fer að leka.
Þar sem tengja þarf gasskynjara við rafmagn er erfitt að koma þeim fyrir í tjaldvögnum. Tjaldvagnar eru einnig opnari og gasið á því greiðari leið út ef það lekur heldur en í hjólhýsum eða fellihýsum.
Við hvetjum eigendur tjaldvagna að hafa ekki gas inni í svefnrými yfir nóttina. Hafa þarf í huga að gasbúnaðurinn og gaskútarnir hristast töluvert þegar eftirvagninn er á ferðinni og því þarf að ganga þannig frá lögnum og kútum að ekki skapist hætta af.