Þetta litla tæki hefur fyrir löngu sannað gildi sitt og er eitt einfaldasta og áhrifaríkasta öryggistækið sem þú getur sett upp heima hjá þér.
Þegar þú setur reykskynjarann upp þá á hann að vera sem næst miðju lofts og aldrei nær vegg eða ljósi en sem nemur 30 sm. Þegar búið er að setja reykskynjarann upp þá þarf að kanna hvort hann virki. Mælt er með að hafa einn reykskynjara í hverju rými hússins.
Til þess að kanna virkni reykskynjarans er ýtt á hnappinn á reykskynjaranum. Þá heyrist viðvörunarmerki sem þýðir að hann virkar.
Það er mikilvægt að farið sé yfir virkni reykskynjara heimilisins fjórum sinnum á ári. Ef stutt hljóð heyrist frá skynjaranum á um það bil mínútna fresti þarf að endurnýja rafhlöðuna. Reykskynjarar endast í u.þ.b. 10 ár.
Farið yfir það með öllum á heimilinu hvernig á að hringja í 112 og hvar slökkvitæki og eldvarnateppi heimilisins eru geymd. Almenna reglan er sú að yfirfara þarf slökkvitæki árlega.
Flóttaáætlun er gerð til þess að allir í fjölskyldunni viti hvernig bregðast eigi við ef eldur kviknar á heimilinu.
Algengustu brunar á heimilum má rekja til notkunar á rafmagnstækjum eins og eldavélum. Því þarf að huga vel að því að slökkva á eldavélum, sléttujárnum, straujárni og öllum rafmagnstækjum eftir notkun. Höfum einnig í huga að ofhlaða ekki fjöltengi með mörgum rafmagnstækjum, það skapar aukna brunahættu.
Mikilvægt er að hafa varann á þegar kveikt er á kertum og muna að slökkva á þeim. Desember og janúar eru mánuðir þar sem kertanotkun eykst mikið og gott að vera vel á varðbergi gagnvart aðventuskreytingum og krönsum þar sem kerti eru nálægt. Einnig skal huga vel að staðsetningu útikerta og setja þau ekki á yfirborð sem brennur auðveldlega eins og trépall.
Miklu máli skiptir að bregðast rétt við ef brotist er inn til þín. Gættu að því að innbrotsþjófurinn gæti ennþá verið á vettvangi og því verður þú fyrst og fremst að huga að öryggi þínu. Sýndu því skynsemi og ekki fara inn í húsið ef þú telur að einhver sé inn í því. Hringdu strax á lögregluna í 112 og tilkynntu innbrotið.