Hvernig virkar starfsábyrgðartrygging?
Fólk sem leitar til sérfræðinga væntir þess að sú þjónusta sé veitt af fagmennsku. Verði sérfræðingi á mistök við vinnu sína eða hann vanrækir skyldur sínar getur hann orðið skaðabótaskyldur vegna fjártjóns sem viðskiptavinir hans verða fyrir af þeim sökum. Tjón af þessu tagi getur fengist bætt úr starfsábyrgðartryggingum. Starfsábyrgðartryggingar bæta hins vegar ekki skaða sem felst í því að vinnan sé gölluð eða væntingar viðskiptavinar til árangurs þjónustunnar séu ekki uppfylltar. Þær taka heldur ekki til ábyrgðar sem er önnur eða víðtækari en leiðir af almennum reglum um ábyrgð viðkomandi fagstéttar.
Í flestum tilvikum þarf starfsábyrgðartryggingin að vera í gildi á þeim tímapunkti þegar tilkynning um kröfu kemur fram og tekur hún þá til tjóns af völdum mistaka eða gáleysis sem einnig átti sér stað á gildistíma tryggingarinnar. Þess vegna er mikilvægt að hugað sé að áframhaldandi tryggingavernd eftir starfslok.
Sem dæmi um tilvik sem geta fallið undir starfsábyrgðartryggingu má nefna að ef byggingastjóri sér ekki til þess að lagnir húss séu í samræmi við samþykktar teikningar og leggja þarf í kostnað við lagfæringar á þeim.
Annað dæmi er ef lögmaður vanrækir að lýsa kröfu í þrotabú fyrir tilskilinn frest og umbjóðandi hans glatar rétti sínum til greiðslna úr búinu.
Hverjir kaupa starfsábyrgðartryggingu?
Starfsábyrgðartryggingar eru fyrst og fremst ætlaðar sérfræðingum og fagstéttum sem bjóða sérhæfða þjónustu sem byggir á tiltekinni fagmenntun og/eða opinberri leyfisveitingu.