Stjórn
Björgólfur Jóhannsson, stjórnarformaður, fæddur 28. ágúst 1955, til heimilis á Seltjarnarnesi. Björgólfur var kjörinn í stjórn Sjóvár 15. mars 2019 en steig til hliðar í nóvember 2019 tímabundið og var aftur kjörinn í stjórn 12. mars 2020 og tók þá við stjórnarformennsku. Björgólfur er með Cand. Oecon. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og löggildingarpróf í endurskoðun. Hann starfaði sem endurskoðandi á árunum 1985-1992. Björgólfur var fjármálastjóri Útgerðarfélags Akureyringa hf. 1992-1996, framkvæmdastjóri nýsköpunar og þróunar hjá Samherja 1996-1999, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar 1999-2006, framkvæmdastjóri Icelandic 2006-2007 og forstjóri Icelandair Group 2008-2018. Hann starfaði sem annar forstjóra Samherja frá nóvember 2019 til febrúar 2021. Björgólfur var formaður stjórnar LÍÚ á árunum 2003-2008 og formaður Samtaka atvinnulífsins 2013-2017. Í gegnum árin hefur hann setið í stjórnum margra fyrirtækja í ýmsum greinum atvinnulífsins. Björgólfur situr í stjórnum Kjarnafæði-Norðlenska, Kjálkaness, Norðurbaða, Gadusar og Steinasala.
Björgólfur er óháður félaginu, daglegum stjórnendum og stórum hluthöfum félagsins.
Hildur Árnadóttir, varaformaður, fædd 4. ágúst 1966, til heimilis í Kópavogi. Hildur hefur setið í stjórn Sjóvár frá 15. mars 2019. Hún var formaður stjórnar frá nóvember 2019 til mars 2020. Hildur er með Cand. Oecon. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og lauk prófi sem löggiltur endurskoðandi. Hildur starfaði sem löggiltur endurskoðandi og eigandi hjá KPMG 1990-2004, framkvæmdastjóri fjármála hjá Bakkavör Group hf. og síðar sem ráðgjafi á skrifstofu forstjóra 2004-2014, forstöðumaður fjárstýringar Íslandsbanka 2014-2015 og við ráðgjöf og stjórnarstörf frá 2016. Í gegnum árin hefur Hildur setið í stjórnum margra fyrirtækja í ýmsum greinum atvinnulífsins, s.s. í stjórn Bakkavarar Group hf., Exista hf. og Viðskiptaráðs. Hún hefur jafnframt verið í endurskoðunar- og starfskjaranefndum. Hildur situr í stjórnum Íslandsstofu, Arctic Fish Holding SA, Eldeyjar eignarhaldsfélags hf., Norðursiglingar hf., Íþöku fasteigna ehf., Héðins hf., Argyron ehf. og MyPulse ehf.
Hildur er óháð félaginu, daglegum stjórnendum og stórum hluthöfum félagsins.
Guðmundur Örn Gunnarsson, fæddur 6. janúar 1963, til heimilis í Garðabæ. Guðmundur var fyrst kjörinn í stjórn Sjóvár 12. mars 2020 og hann hefur frá 28. apríl 2021 verið stjórnarformaður dótturfélagsins Sjóvá-Almennra líftrygginga hf. Guðmundur stundaði nám í tryggingastærðfræði og tölvunarfræði við háskólann í Kaupmannahöfn í Danmörku. Guðmundur starfaði í 23 ár hjá Tryggingamiðstöðinni m.a. sem deildarstjóri upplýsingadeildar og hafði umsjón með tölvudeild, var framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar. Hann var forstjóri Vátryggingafélags Íslands hf. (VÍS) og Líftryggingafélags Íslands (Lífís) 2008-2011. Frá 2011-2013 sinnti Guðmundur ýmsum ráðgjafastörfum og þá aðallega við gerð viðskiptaáætlana og gerð stefnumótunar á sviði nýsköpunar. Frá 2014-2022 var hann framkvæmdastjóri CAE Icelandair Flight Training ehf. sem á og rekur flugherma í þjálfunarsetri Icelandair. Guðmundur hefur víðtæka reynslu af stjórnarstörfum bæði sem almennur stjórnarmaður og stjórnarformaður. Hann er í dag stjórnarformaður hjá Vinnslustöðinni hf., stjórnarformaður CAE Icelandair Flight Training ehf. og stjórnarmaður hjá BL ehf.
Guðmundur er óháður félaginu, daglegum stjórnendum og stórum hluthöfum félagsins.
Ingi Jóhann Guðmundsson, fæddur 12. janúar 1969, til heimilis í Garðabæ. Ingi Jóhann hefur setið í stjórn Sjóvár frá 28. júlí 2011. Ingi Jóhann er Cand.Oecon. í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og starfar sem framkvæmdastjóri Gjögurs hf. og Kjálkaness ehf. Ingi Jóhann er stjórnarformaður í Hrólfsskers ehf. sem á 15,65% hlut í Sjóvá, en Ingi Jóhann á óbeinan hlut Hrólfsskeri í gegnum Kjálkanes ehf. sem á 34,2% hlut í félaginu. Ingi á 22% eignarhlut í Kjálkanesi ehf.
Ingi telst óháður félaginu og daglegum stjórnendum þess en telst háður stórum hluthafa samkvæmt leiðbeiningum um stjórnarhætti.
Ingunn Agnes Kro, fædd 27. mars 1982, til heimilis í Reykjavík. Ingunn var fyrst kjörin í stjórn Sjóvár 12. mars 2020. Hún er með BA og MA í lögfræði og með MBA gráðu frá Háskóla Íslands, með málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi og er löggiltur verðbréfamiðlari. Ingunn starfaði hjá Skeljungi hf. á árunum 2009-2019, síðast sem framkvæmdastjóri skrifstofu- og samskiptasviðs, þar sem hún bar ábyrgð á samskipta-, samfélagsábyrgðar-, lögfræði-, markaðs- og mannauðsmálum, en áður sem yfirlögfræðingur, regluvörður, ritari stjórnar og sat í framkvæmdastjórn. Hún var einnig framkvæmdastjóri Íslenska vetnisfélagsins ehf. (dótturfélags Skeljungs hf.) á árunum 2018-2019. Á árunum 2008-2010 var Ingunn stundakennari og síðar aðjúnkt hjá lagadeild Háskóla Íslands þar sem hún kenndi skaðabótarétt. Ingunn er stjórnarformaður RARIK. Hún er einnig stjórnarmaður hjá Iceland Seafood International hf. og formaður endurskoðunarnefndar félagsins. Ingunn situr auk þess í stjórn Freyju, fjárfestingasjóðs. Þá situr Ingunn í stjórn Votlendissjóðs, sem er sjálfseignarstofnun sem vinnur að því markmiði að minnka losun gróðurhúsalofttegunda.
Ingunn er óháð félaginu, daglegum stjórnendum og stórum hluthöfum félagsins.
Varamenn í stjórn
Erna Gísladóttir, fædd 5. maí 1968, til heimilis í Garðabæ. Erna sat í stjórn Sjóvár frá 20. júní 2009 lengst af sem formaður stjórnar og síðar sem varamaður frá 15. mars 2019, en hún settist tímabundið aftur í stjórn 19. nóvember 2019-12. mars 2020. Erna lauk B.Sc. í hagfræði frá Háskóla Íslands 1991 og MBA frá IESE í Barcelona 2004. Erna er framkvæmdastjóri Egg ehf. Hún var forstjóri BL ehf. 2013-2023, forstjóri Bifreiða og landbúnaðarvéla hf. 2003-2008, var einn af eigendum þess félags og framkvæmdastjóri frá 1991. Hún situr í stjórnum BL ehf., Egg ehf., Egg fjárfestingar ehf., Umbreytingar slhf. og Ölmu ehf.
Erna er ásamt eiginmanni sínum eigandi og stjórnarmaður í Egg fjáfestingar ehf. sem á 3,26% eignarhlut í Sjóvá.
Erna er óháð félaginu, daglegum stjórnendum og stórum hluthöfum félagsins.
Garðar Gíslason, fæddur 19. október 1966, til heimilis í Garðabæ. Hann hefur verið varamaður í stjórn Sjóvár frá 30. september 2011. Garðar er Cand.Jur. frá Háskóla Íslands 1997. Hann hefur starfað sem lögmaður frá 2005, lengst af á LEX lögmannsstofu, en frá 2016 á IUS lögmannsstofu. Hann var yfirlögfræðingur og síðar forstöðumaður hjá embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins og staðgengill skattrannsóknarstjóra frá 1997-2005. Garðar situr í stjórnum eftirfarandi félaga: IUS lögmannsstofa ehf., Valshjartað hf., Ránarborg ehf. (varamaður), Harðbakur ehf. (varamaður), Völsi Capital Partners ehf. (varamaður) og Salvus ehf. (varamaður).
Garðar hefur veitt Sjóvá lögfræðilega ráðgjöf í afmörkuðum verkefnum á sviðum stjórnsýslu-, félaga- og fjármagnsmarkaðsréttar.
Garðar er óháður félaginu, daglegum stjórnendum og stórum hluthöfum félagsins.