Vinnuslys
Reglur um tilkynningu vinnuslysa
Það skiptir miklu máli að atvinnurekendur fylgi í einu og öllu lagareglum um tilkynningu vinnuslysa. Vanræki vinnuveitandi að tilkynna slys til Vinnueftirlits Ríkisins eða láti rannsaka aðstæður á annan hátt hafa dómstólar lagt allan sönnunarvafa á vinnuveitanda um aðstæður á slysstað og orsakir slyss. Slíkt hefur leitt til þess að fyrirtæki hafi þurft að greiða háar skaðabótakröfur sem annars hefði mátt komast hjá. Vanræksla á tilkynningarskyldu um vinnuslys telst einnig vera refsiverð og varðar sektum.
Hvað á að gera?
- Vinnuveitandi á samkvæmt lögum að tilkynna alvarleg slys þegar í stað bæði til lögreglu 112 og Vinnueftirlitsins.
- Tilkynna þarf slysið innan sólarhrings frá slysi og ekki má raska vettvangi fyrr en rannsókn hefur farið fram.
- Tilkynningarskyldan getur einnig hvílt á öðrum en vinnuveitanda hins slasaða, t.d. aðalverktaka, þar sem fleiri aðilar eru að störfum á sama vinnustað.
- Verkstjóri eða aðrir yfirmenn þurfa að meta hvort alvarleiki slyss sé slíkur að slysið þurfi að tilkynna strax. Gott er að hafa í huga að erfitt er og oft ekki hægt að meta hversu alvarlegt slysið er út frá sjáanlegum áverkum.
- Vinnuveitandi á einnig að tilkynna öll vinnuslys til Sjúkratrygginga Íslands á þar til gerðu eyðublaði. Sú tilkynning er forsenda fyrir rétti hins slasaðra og vinnuveitanda fyrir endurgreiðslu
- Ávallt á að tilkynna banaslys og öll slys sem geta mögulega valdið langvinnu eða varanlegu heilsutjóni. Dæmi um slíkt eru höfuðhögg, bak- eða hálsmeiðsl, meiðsl á liðum (úlnlið, olnboga, öxl, mjöðm, hné eða ökkla), öll beinbrot, útlimamissir, augnskaði, innvortis áverkar, eitranir og djúp sár, sem gætu leitt til skaða á taugum eða sinum. Í vafatilvikum er ávallt rétt að tilkynna slys símleiðis þegar í stað og tryggja að rannsókn fari fram.
- Reynist slysið vera alvarlega en í upphafi var haldið og það leiðir til fjarveru starfsmanns um lengri eða skemmri tíma er rétt að óska eftir lögreglurannsókn strax og það kemur í ljós. Ef lögregla eða Vinnueftirlit annast ekki rannsóknina er mikilvægt að vinnuveitandi geri það sjálfur.
- Vinnuveitandi á að auki að senda Vinnueftirlitinu skriflegar upplýsingar um öll slys sem leiða til fjarveru starfsfólks í a.m.k. einn dag. Það er gert með sérstöku eyðublaði sem á að berast Vinnueftirlitinu innan 14 daga frá slysi.
- Vinnuveitandi á einnig að tilkynna öll vinnuslys til Sjúkratrygginga Íslands á þar til gerðu eyðublaði. Sú tilkynning er forsenda fyrir rétti hins slasaðra og vinnuveitanda fyrir endurgreiðslu sjúkrakostnaðar, dagpeninga og örorkubóta.
- Mikilvægt er að skriflegar tilkynningar séu skýrar og tæmandi og að þar sé einungis greint frá atriðum sem vinnuveitandi getur staðfest réttar.
Eyðublað til Vinnueftirlitsins um vinnuslys (önnur en slys á sjó)
Eyðublað Sjúkratrygginga Íslands um vinnuslys (önnur en slys á sjó)