Kaup og sala vöru
Það er markmið þeirra sem að flutningum standa, kaupanda, seljanda og flutningsaðila, að varan komist áfallalaust á áfangastað. Það kann þó að vera ýmsum vandkvæðum bundið að ná því marki, því að þær vörur sem berast til og frá landinu fara um langan veg, oft heimshorna á milli.
Til að öryggið sé eins og best verður á kosið þarf tvennt að fara saman: Nákvæmt skipulag á framvindu flutnings og góður frágangur seljenda og flytjenda á vörunni.
En þrátt fyrir vandaðan undirbúning og góðan frágang er alltaf einhver áhætta til staðar og hana verður að taka með í reikninginn.
Eitt af því sem aðilar þurfa að koma sér saman um í upphafi er hvenær áhættan á því að varan verði fyrir tjóni í flutningum færist frá seljanda til kaupanda. Getur það samkomulag verið með ýmsum hætti. Þegar samið er um afhendingu eru Incoterms® reglur Alþjóða verslunarráðsins (ICC) notaðar.
Þjónusta tengd flutningstryggingum
Inn- og útflytjendum er það afar mikilvægt að eiga greiðan aðgang að lipurri sérfræðiþjónustu á sviði trygginga hvar sem er í heiminum.
Sjóvá hefur samið við sérfræðinga á þessu sviði í fjölmörgum löndum um að þeir komi fram fyrir hönd félagsins og veiti faglega aðstoð.
Iðgjöld flutningstrygginga eru lág og þýðingarmikið er fyrir íslenska hagsmunaaðila, sem stunda inn- og útflutningsverslun og skjólstæðinga þeirra, að hafa sem greiðastan aðgang að tjónsuppgjöri. Það gerist best með því að kaupa tryggingarverndina hér á landi.