Sífellt vinsælli ferðamáti
Vespur eru orðnar mjög vinsæll ferðamáti fyrir ungt fólk jafnt sem fullorðna. Það er leyfilegt að aka vespum, sem flokkast sem létt bifhjól í flokki 1, bæði á gangstígum og hjólastígum, því er nauðsynlegt að þeir sem aka þessum bifhjólum þekki vel þær umferðarreglur sem gilda þar. Það er á ábyrgð foreldra að kenna krökkunum þær umferðarreglur sem gilda og hvernig skuli haga akstrinum. Mikil umferð er oft á göngustígum, ekki síst nú þegar sífellt fleiri ganga, hjóla og hlaupa í frítíma sínum. Því er mikilvægt að þeir sem ferðast um á léttum bifhjólum sýni ýtrustu varkárni og tillitssemi. Þannig er hægt að lágmarka slysahættu og stuðla að öryggi okkar allra í umferðinni.
Létt bifhjól og tryggingar
Það er ekki vátryggingaskylda á léttum bifhjólum í flokki 1, líkt og á öðrum skráningarskyldum ökutækjum (s.s. bílum og mótorhjólum). Í flokki léttra bifhjóla I eru bifhjól sem ná ekki meiri hraða en 25 km á klst. hvort sem þau eru raf- eða bensíndrifin. Slík hjól falla aftur á móti undir Fjölskylduverndina hjá okkur og því er ökumaður sem er með Fjölskylduvernd 2 eða Fjölskylduvernd 3 tryggður fyrir tjóni og er slysatrygging í frítíma valkvæð í Fjölskylduvernd 1. Fjölskylduverndin nær yfir: tjón sem verða á bifhjólinu, þjófnað, slys á ökumanni og munaskemmdir þriðja aðila.