Rétt viðbrögð skipta máli

Við­brögð við vinnu­slysum

Mikilvægt er að vinnuveitendur bregðist rétt við ef slys verður á vinnustað. Áríðandi er að koma slösuðum í öruggar hendur m.t.t. eðli áverka hverju sinni og ávallt skal hringja í neyðarlínu, 112 ef um alvarlegt slys er að ræða.

Það er á ábyrgð vinnuveitanda að tilkynna vinnuslys og sjá til þess að rannsókn fari fram í öllum tilvikum eins fljótt og auðið er og áður en vettvangi er raskað.

Hvert á að tilkynna vinnuslys og hvernig?

Vinnuveitanda ber að tilkynna vinnuslys til Vinnueftirlits, Sjúkratrygginga Íslands og eftir atvikum til lögreglu og Sjóvá:

  1. Tilkynna skal Vinnueftirlitinu um vinnuslys sem veldur því að starfsmaður er fjarverandi í einn eða fleiri daga eftir atvikið og skal það gert án tafar (eða innan sólarhrings) (sjá hér).
  2. Tilkynna skal Sjúkratryggingum Íslands um vinnuslys tafarlaust eða í síðasta lagi innan árs frá slysdegi (sjá hér), en útlagður sjúkrakostnaður fæst t.d. endurgreiddur þar.
  3. Í alvarlegri tilvikum skal hafa samband við lögreglu og fá úttekt á aðstæðum á vettvangi.
  4. Einfalt er að tilkynna vinnuslys á Mitt Sjóvá. Leiðbeiningar til fyrirtækja hér.

Vinnuveitendur skrái upplýsingar um vinnuslys

Sjái Vinnueftirlit eða lögregla ekki ástæðu til að koma á staðinn er eftir sem áður áríðandi að vinnuveitandi tryggi sönnun á aðstæðum og tildrögum slyss með innanhússrannsókn, sjá hér:

  1. Gera dagsetta atvikaskýrslu
  2. Fá undirritun frá tjónþola og sjónarvottum
  3. Taka myndir af aðstæðum á slysstað
  4. Vista myndefni (ef til er)

Vistun á gögnum sem tengjast slysinu

Ráðlegt er að vista öll gögn tengd slysinu í sömu möppu í tölvunni svo auðvelt sé að nálgast gögnin ef á þarf að halda. Vönduð viðbrögð við vinnuslysum tryggja það að málið fær bæði réttari og skjótari úrvinnslu hjá tryggingafélaginu. Auk þess sem það minnkar líkur á vafa við mat á bótarétti, en dómafordæmin sýna að allur vafi er metinn vinnuveitanda í óhag.

Varðandi rafræna vöktun og varðveislu og afhendingu á myndefni bendum við á að í reglum um rafræna vöktun nr. 50/2023 er að finna heimild fyrir því að senda tryggingafélagi myndefni til að unnt sé að ákvarða bótaskyldu í tjónamáli (sbr. 10. gr.). Eins má þar finna heimild fyrir því að varðveita myndefni lengur en í 30 daga ef tjónsatvik verður (sbr. 11. gr.). Eyða skal síðan myndefni þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita það. Bendum ykkur á að kynna ykkur efni reglna nánar í skjalinu hér fyrir neðan.

Forvarnir og áhættumat

Að lokum bendum við á mikilvægi þess að fyrirtæki sinni forvörnum og geri áhættumat fyrir helstu þætti starfseminnar til að auka öryggi starfsfólks í sínu vinnuumhverfi og koma í veg fyrir slys.

Ráðgjafar okkar á fyrirtækjasviði eru alltaf tilbúnir að svara spurningum eða veita ráðgjöf. Við bjóðum fyrirtækjum uppá áhættuheimsóknir. Hægt er að senda fyrirspurn á fyrirtaeki@sjova.is