Sjóvátryggingafélag Íslands var stofnað árið 1918. Fólki hafði þá sviðið um nokkurt skeið að á Íslandi væri ekki starfandi innlent almennt vátryggingafélag, heldur aðeins umboðsskrifstofur erlendra félaga. Með stofnun félagsins var því stigið fyrsta skrefið hér á landi til að reka sjálfstætt, innlent tryggingahlutafélag. Það var trú fólks að þannig væri betur hægt að mæta þörfum viðskiptavina og veita þeim betri þjónustu.
Sjóvá á rætur sínar að rekja til þessa félags en einnig til Almennra trygginga, sem stofnaðar voru árið 1943. Þessi tvö félög sameinuðust í Sjóvá-Almennum tryggingum árið 1989. Samnefnt félag var svo stofnað á grunni þess fyrrnefnda árið 2009 og er það yfirleitt kallað Sjóvá.
Þó að margt hafi breyst frá upphafsárum félagsins má segja að kjarni starfseminnar sé í grunninn enn sá sami. Hlutverk Sjóvá er að tryggja verðmætin í lífi fólks og vera bakhjarl einstaklinga og fyrirtækja þegar á reynir. Því hlutverki getum við sinnt af sanngirni og umhyggju með því að vera í stöðugu og góðu sambandi við viðskiptavini og fylgjast vel breytingum í samfélaginu.
Með öflugum mannauði sem hefur metnað til að veita framúrskarandi þjónustu og skýrri sýn hefur okkur tekist að auka traust viðskiptavina okkar og ánægju til muna á síðustu árum. Við höldum því áfram að vinna að framtíðarsýn okkar og veita þjónustu sem skapar traust og hugarró í lífi viðskiptavina okkar.