Þau sem flytja til Íslands þurfa að hafa lögheimili hér á landi í sex mánuði áður en þau falla undir almannatryggingar. Þetta á bæði við um útlendinga sem hingað koma og Íslendinga sem hafa flutt lögheimili sitt til annars lands og eru að snúa aftur.
Ef þú ert í þessum sporum mælum við með að þú kaupir sjúkrakostnaðartryggingu sem auðveldar þér að brúa þetta bil. Sjúkrakostnaðartrygging innanlands gildir í sex mánuði og veitir sambærilega vernd og sjúkratryggingar.
Þú getur keypt Sjúkrakostnaðartryggingu fyrir þig og fyrir aðra. Ef þú ert með rafræn skilríki eða aðgang að íslenskum netbanka getur þú sótt um fyrir einstaklinga sem hafa ekki íslenska kennitölu, einn eða fleiri í einu.
Þegar sótt er um fyrir einstakling sem ekki er með íslenska kennitölu þarf skannað afrit af vegabréfi viðkomandi að fylgja með umsókninni.
Forráðamenn barna geta einnig sótt um fyrir þeirra hönd.
Þú getur keypt Sjúkrakostnaðartryggingu fyrir þig eða barnið þitt. Athugaðu að þú getur aðeins keypt tryggingu fyrir einn einstakling í einu.
Skannað afrit af vegabréfi þess sem sótter um fyrir þarf að fylgja með umsókninni.
Sjúkrakostnaðartryggingu innanlands er ætlað að brúa bil frá komu til landsins þar til einstaklingur kemst inn í almannatryggingakerfið. Tryggingin er lögbundin samkvæmt lögum um sjúkratryggingar nr. 112/2008.
Hvað er tryggt? | Hvað er ekki tryggt? |
---|---|
Tryggingin greiðir kostnað við: | Tryggingin greiðir ekki kostnað: |
Sjúkrahúsvist að ráði læknis. | Við meðferð vegna sjúkdóms sem fyrst hafði sýnt einkenni eða slyss sem varð áður en tryggingin tók gildi. |
Almenna læknishjálp utan sjúkrahúsa. | Vegna meðgöngu, fæðingarhjálpar eða sjúkdóma sem rekja má til meðgöngu eða fósturláts. |
Lyf sem vátryggðum er lífsnauðsynlegt að nota. |
Tryggingin bætir ekki annan hluta sjúkrakostnaðar en þann sem hefði verið bættur af Sjúkratryggingum Íslands.
Tryggingin gildir á Íslandi.
Þú þarft að tilkynna tjón eins fljótt og kostur er og ekki síðar en innan árs frá tjónsdegi.
Þú þarft að sjá til þess að allar upplýsingar á vátryggingarskírteininu séu réttar.
Þú þarft að tilkynna okkur um breytingar á heimilisfangi, símanúmeri og netfangi.
Þér ber að fara eftir varúðarreglum í skilmálum.
Iðgjaldið á að greiða á gjalddaga. Við útgáfu eða endurnýjun tryggingarinnar stofnast rafræn krafa í netbanka. Þú átt kost á að dreifa greiðslum iðgjaldsins með:
Boðgreiðslu, þar sem iðgjaldið er skuldfært mánaðarlega af kredit- eða debetkorti.
Beingreiðslu, þar sem skuldfært er mánaðarlega af bankareikningi.
Fyrirtækjadreifingu, þar sem hægt er að greiða iðgjöld með mánaðarlegum greiðslum.
Tryggingin tekur gildi við móttöku umsóknar frá þér, að því gefnu að hún sé samþykkt og gildir í 6 mánuði nema um annað sé samið.
Einstaklingar og fyrirtæki með færri en fimm stöðugildi geta sagt tryggingum upp hvenær sem er og falla þær þá niður í lok þarnæsta mánaðar frá því uppsögnin berst. Önnur fyrirtæki geta sagt tryggingum upp með mánaðarfyrirvara fyrir lok tryggingatímabilsins.
Uppsögn þarf að vera skrifleg, t.d. með rafrænni undirskrift.