Algengar spurningar
Hvaða barnabílstóll er bestur?
Það skiptir mestu máli að valinn sé barnabílstóll sem hentar stærð og þyngd barnsins, að stóllinn passi í bílinn og síðast en ekki síst að hann sé alltaf rétt festur. Fylgdu ávallt leiðbeiningum framleiðanda um hvernig festa á stólinn á réttan hátt.
Við mælum með að barnið sé tekið með þegar valinn er nýr barnabílstóll. Þá er hægt að finna út hvernig barnið passar í stólinn.
Passa allir barnabílstólar í alla bíla?
Nei. Bæði barnabílstólar og bílar eru mismunandi og því passa ekki allir stólar í allar gerðir bíla.
Paraðu saman tegund stóls og bíl
Margir framleiðendur og seljendur barnabílstóla bjóða upp á að paraðar séu saman tegundir barnabílstóla við árgerð og tegund bíla ("fit finder" eða "car fitting list") á heimasíðum sínum. Þannig er hægt að finna út hvaða barnabílstóll passar örugglega í þinn bíl.
Mátaðu stólinn í bílinn
Ef ekki er boðið upp á slíkt þá er eindregið mælt með að þú fáir lánað sýniseintak úr versluninni og mátir hann í bílinn þinn fyrir utan verslunina. Gættu þess að fylgja leiðbeiningum framleiðenda um hvernig á að festa stólinn á öruggan og réttan hátt. Þannig finnur þú fljótt út hvort hann passar vel í bílinn þinn.
ISOFIX festingar
Nýrri bílar og margar tegundir barnabílstóla eru með ISOFIX festingar. ISOFIX virkar þannig að griparmi aftan á barnabílstól er rennt í festingu í aftursæti þar sem báðar festingarnar læsast saman.
Hversu lengi á barnið að vera bakvísandi í bílnum?
Eins lengi og hægt er. Ekki er mælt með að barn yngra en 1 árs sé í framvísandi stöðu. Ástæðan er sú að höfuð barns yngra en 1 árs er hlutfallslega mjög þungt og hálsliðir barna yngri en 3 ára eru ekki fullþroskaðir og því viðkvæmir. Ef framendi bíls lendir í árekstri þá þrýstist háls og höfuð barns að baki bílstólsins og ver viðkvæma líkamsparta barnsins. Þannig minnka líkur á alvarlegum áverkum á höfuð, hálsi og mænu. Bakvísandi barnabílstóll takmarkar höggið og hreyfinguna sem verður í kjölfar áreksturs og því er öruggara að hafa barnið bakvísandi eins lengi og hægt er.
Ef fæturnir á barninu ná upp á sætisbakið, á ég að skipta um barnabílstól?
Nei ekki endilega. Rannsóknir hafa sýnt að það hefur ekki áhrif á öryggi barnsins þó svo að fæturnir á barninu nái upp á sætisbakið eða séu bognir, mestu máli skiptir að verja höfuð, háls og bak. Ef höfuð þeirra er komið upp fyrir efri brún barnabílstólsins en þau hafa ekki náð þeirri hámarksþyngd sem framleiðandi gefur upp fyrir stólinn þá er gott að miða við að efri brún stólsins sé ekki neðar en sem nemur miðju á eyru barnsins. Ef höfuð barnsins er komið ofar en það þá þarftu að skipta um stól til þess að tryggja að höfuð, háls og bak sé með góðan stuðning.
Má setja barn í framsæti ef öryggispúðinn er virkur þar?
Ef virkur öryggispúði er í mælaborði fyrir framan framsætið farþegamegin þá má aldrei setja barn í öryggisbúnaði þar. Börn verða að hafa náð 150 cm hæð til að geta setið í framsæti þar sem virkur öryggispúði er. Ástæðan er sú að lægri börn geta slasast alvarlega ef púðinn blæs út eftir umferðaróhapp.
Ef þú ætlar að festa bakvísandi öryggisbúnað fyrir börn í framsæti þá þarftu fyrst að aftengja öryggispúðann sem er fyrir framan framsætið. Hafðu samband við fagaðila eða bílaumboð ef þú ætlar að taka öryggispúðann úr sambandi.
Hver er endingartími barnabílstóla?
Það er mismunandi eftir því um hvaða gerð af barnabílstól er verið að ræða. Ungbarnabílstólar hafa fimm ára endingartíma. Barnabílstólar fyrir eldri börn s.s. barnabílstólar, sessur með baki og sessur hafa 10 ára endingartíma samkvæmt framleiðenda. Endingartíminn tekur mið af því ári sem búnaðurinn er fyrst tekinn í notkun (þ.e. þegar hann er fyrst tekin úr umbúðunum). Notaður barnabílstóll í geymslu telst vera í notkun.
Hvar get ég séð hvenær barnabílstóllinn var framleiddur?
Allir barnabílstólar eru með merkingu sem sýnir hvaða mánuð og ár barnabílstóllinn var framleiddur. Merkið er brætt í plastið og oftast er það staðsett annað hvort undir stólnum eða á bakinu. Oft eru tvær merkingar t.d. hringlaga klukkur með vísi. Önnur þeirra bendir á framleiðslumánuð og hinn framleiðsluárið. Hér má sjá mynd sem sýnir stól sem framleiddur var í apríl 2007.
Get ég notað barnabílstól frá Bandaríkjunum?
Nei, þann 1.júlí 2013 voru settar reglur sem bönnuðu innflutning, sölu og notkun Bandaríska barnabílstóla og bílpúða með baki (og sessur). Allur öryggisbúnaður fyrir börn í bílum á að uppfylla evrópskar kröfur eða ECE R44 04. Fram að þessu hefur ekki verið um að ræða sérstakt eftirlit til að taka stólana úr umferð og þessir stólar verða ekki innkallaðir. Foreldrum og forráðamönnum barna er hins vegar bent á að nota stólana þar til barnið vex upp úr honum eða þar til líftími hans rennur út. Þá á að farga honum í endurvinnslustöð. Athygli er vakin á því að bannið nær ekki eingöngu til kaupa og sölu heldur líka notkunar þannig að það gildir líka ef þú hefur fengið slíkan búnað gefins.
Get ég notað barnabílstól frá Bandaríkjunum ef bílinn er innfluttur beint frá Bandaríkjunum?
Ekki er mælt með að fólk kaupi FMVSS barnabílstól frá Bandaríkjunum jafnvel þótt það eigi bíl sem er framleiddur fyrir Bandaríkjamarkað en FMVSS er auðkenni fyrir Bandaríska barnabílstóla. Betra er að kaupa ECE R44 viðurkenndan barnabílstól sem er með ISOFIX festingu og festa hann við LATCH-lykkjur bílsins en slíkar festingar eru í Bandarískum bílum. Einnig er til öryggisbúnaður fyrir börn í bílum sem er bæði FMVSS viðurkenndur og ECE R 44 viðurkenndur.
Hvað er ECE R44?
Merkingin er auðkenni fyrir viðurkenndan öryggisbúnað fyrir börn í bíl. Allur öryggisbúnaður fyrir börn í bíl sem seldur er hér á landi á því að hafa þessa merkingu. ECE R44 er grunnmerkingin en 04 stendur fyrir hvaða útgáfu barnabílstóla staðalsins búnaðurinn uppfyllir. Þannig er 04 nýjasta útgáfa staðalsins (í gildi frá og með 01.07.2006).
Hér að neðan má sjá dæmi um merkingar á ECE R44 barnabílstólum og i-Size.
Hvað er i-Size?
Um er að ræða nýja löggjöf um barnabílstóla sem heitir i-Size ECE R129. Nýju reglurnar gilda samhliða núgildandi löggjöfum sem gilda um barnabílstóla hér á landi (ECE R44/04). Nýju i-Size barnabílstólarnir og reglur um þá miða að því að auka öryggi barna og að þau geti lengur snúið í bakvísandi akstursstefnu.
R44/04 |
i-Size |
Árekstrarprófun: fram og aftur |
Árekstrarprófun: fram, aftur og hliðar |
Barnabílstóll festist með bílbeltum eða ISOFIX |
Barnabílstóll festist eingöngu með ISOFIX |
Krafa um að barn snúi bakvísandi að 13 kg |
Krafa um að barn snúi bakvísandi til 15 mánaða eða 105 cm |
KG - Val byggir á þyngd barns |
SM/CM – Val byggir á hæð barns |
Er í lagi að kaupa eða fá lánaðan notaðan barnabílstól?
Ekki er mælt með að notaður öryggisbúnaður fyrir börn í bíl sé keyptur, lánaður eða leigður. Ástæðan er fyrst og fremst sú að ekki er hægt að vita með vissu hvort stóllinn hafi t.d. orðið fyrir höggi eða verið í bíl sem lenti í umferðaróhappi. Hér á landi gilda engar reglur um notaðan öryggisbúnað fyrir börn í bílum og það er ekki opinbert eftirlit með ástandi barnabílstóla í leigu eða seldir notaðir. Það er hins vegar ekki bannað að selja notaðan öryggisbúnað fyrir börn í bíla og því þurfa þeir sem kjósa að kaupa eða leigja notaðan öryggisbúnað að kanna eftirfarandi:
- Passar stóllinn í bílinn
- Hentar stóllinn hæð og þyngd barnsins
- Hversu gamall er stóllinn
- Hefur hann lent í tjóni eða umferðaróhappi
- Fylgja leiðbeiningar framleiðenda um hvernig festa á stólinn rétt í bílinn
- Hversu mörg börn hafa notað barnabílstólinn áður
Er barnabílstóll ónýtur ef hann hefur lent í árekstri?
Það er mjög erfitt að sjá eða vita hvort stóllinn sé laskaður og þar með ónothæfur. Það þarf ávallt að meta hvert tilfelli fyrir sig. Á Íslandi eru ekki opinberar reglur í gildi, en sænska umferðarstofan hefur gefið út leiðbeiningar um öryggisbúnað sem lent hefur í umferðaróhappi og sú viðmiðun hefur verið höfð til hliðsjónar hjá Sjóvá. Þær leiðbeiningar segja að ef bíllinn lendir í árekstri á litlum hraða við það eitt að vera að bakka í eða úr stæði þá sé barnabílstóllinn ekki ónýtur. Hins vegar, ef bíllinn lendir í harkalegum árekstri eða bílveltu er búnaðurinn mjög líklega ónýtur, jafnvel þó það sjáist ekkert á honum.
Er hægt að fá úttekt á ástandi barnabílstóls?
Nei, en mjög margar fyrirspurnir berast um hvort hægt sé að taka út ástand öryggisbúnaðar barna í bíl. Einfalda svarið er að það er ekki hægt að sjónskoða ástand þeirra eða fá úttekt á ástandi þeirra.
Má ég henda ónýtum barnabílstól í ruslið?
Það er lang best að fara með ónýtan barnabílstól og láta farga honum. Það er hægt er að fara með stólinn eða sessuna í næstu móttökustöð Sorpu og biðja um að honum sé fargað ekki settur í góða hirðinn. Þannig getur þú verið viss um að stóll sem runninn er út á endingartíma eða er skemmdur fari ekki aftur í notkun.
Hvers vegna er ekki mælt með að börn noti sessu án baks?
Sessur án baks eru ekki nægilega góður öryggisbúnaður. Í árekstri þá skapast hætta á að sessan renni undan þeim sem eykur líkur á áverkum undan bílbeltum þar sem það liggur á röngum stað á barninu. Þetta sýna bæði innlendar og erlendar rannsóknir. Því er eindregið mælt með að notuð sé sessa með baki.
Hvað þarf barnið að vera gamalt til þess að nota sessu?
Barn verður að vera orðið 15 kg til að geta notað sessu og öruggast er fyrir barnið að nota hana þangað til að það er orðið 12 ára eða 36 kg. Ef barnið er í barnabílstól sem er gerður fyrir 18 kg eða 25 kg, þá er best það noti þann búnað þangað til að það er vaxið upp úr honum.
Hvernig sessu með baki á ég að velja?
Best er að velja sessu með baki sem hefur hak við axlarhæð sem hægt er að þræða efrihluta 3 punkta beltisins. Það tryggir að bílbeltið liggi yfir öxlina en ekki upp að hálsinum. Neðri hluti beltisins á að liggja yfir læri barnsins og vera þrætt undir hakið sem er neðst á sessunni.
Hvenær má barnið nota eingöngu bílbelti?
Horfðu á hvernig beltið situr á barninu. Ef bílbeltið liggur yfir öxl barnsins og yfir mjaðmabein þá er barnið orðið nægilega hávaxið til þess að nota eingöngu bílbelti. Ef hins vegar öryggisbeltið liggur yfir háls eða kvið barnsins þá er það ekki orðið nægilega stórt til þess að nota eingöngu bílbelti. Ástæðan er sú að ef beltið liggur yfir háls eða kvið þá ver það ekki barnið rétt og eykur hættu á áverkum í kjölfar umferðaróhapps.
Hvernig kem ég 3 börnum fyrir í aftursætunum ef miðjubeltið er með 2 punkta belti?
Það fer eftir því hversu gömul börnin eru en öruggast er að hafa yngstu börnin í miðjusætinu því það eru til ungbarna- og barnabílstólar sem eru gerðir fyrir bæði 2 og 3 punkta bílbelti. Ef miðjusætið er kúpt, er mikilvægt að athuga hvort að barnabílstóllinn passi í sætið. Ekki er öruggt að hafa eldri börn (á eða án sessu) í 2 punkta belti.