Árið 2018 fagnaði Sjóvá 100 ára sögu starfseminnar, en Sjóvátryggingarfélag Íslands var stofnað þann 20. október 1918. Á þessum árum sveið fólki nokkuð að hér á landi væri ekki starfandi innlent almennt vátryggingafélag, en þegar Sjóvá var stofnað störfuðu hér allmörg erlend vátryggingafélög í gegnum umboðsskrifstofur.
Stofnun Sjóvátryggingarfélags Íslands hf. var fyrsta skrefið sem stigið var hér á landi af einstaklingum, til að reka sjálfstætt, innlent tryggingahlutafélag. Stofnendur þess voru aðilar sem töldu nauðsynlegt að færa verslun og viðskipti inn í landið og veita erlendu félögunum innlenda samkeppni.
Eins og nafn félagsins ber með sér var fyrsta markmið þess að taka að sér sjóvátryggingar, bæði skipatryggingar og farmtryggingar. Smám saman færði félagið þó út kvíarnar og varð fljótlega alhliða vátryggingafélag.
Rætur Sjóvár má rekja til stofnunar Sjóvátryggingafélagsins árið 1918 og síðar Almennra trygginga sem stofnaðar voru 1943. Þau félög sameinuðust í Sjóvá-Almennum tryggingum hf. árið 1989. Samnefnt félag var svo stofnað á grunni þess fyrrnefnda árið 2009 og er það í daglegu tali nefnt Sjóvá.