Að tryggja gagnsætt og skilvirkt verklag við úrvinnslu ábendinga og kvartana og tryggja að slík erindi fái skjóta og sanngjarna afgreiðslu. Stefnan er sett í samræmi við 9. og 10. gr. laga nr. 100/2016 um vátryggingastarfsemi og reglna nr. 535/2022 um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, samskipti við viðskiptavini og meðhöndlun kvartana.
Nær til starfsmanna, umboðsaðila, verktaka og allra sem taka að sér verk í þágu Sjóvár.
Ábendingum er tekið fagnandi enda eru þær mikilvægar til að bæta þjónustu, vörur og afgreiðslu mála hjá okkur. Beina má ábendingum símleiðis til starfsmanna, senda þær skriflega í pósti eða með rafrænum hætti í gegnum sjova.is.
Sendi nafngreindur aðili óskýra ábendingu er leitað eftir nánari upplýsingum frá viðkomandi svo hægt sé að afgreiða ábendinguna á viðeigandi hátt.
Staðfesting á móttöku ábendingar og samskipti sem af henni leiða eru skrifleg eða með sambærilegum hætti og ábendingin barst. Móttaka er staðfest innan 24 stunda og leitast er við að afstaða Sjóvár í málinu liggi fyrir innan fjögurra vikna. Dragist afgreiðsla lengur skal viðkomandi aðili fá skýringu á töfinni og hvenær niðurstaða sé væntanleg.
Í innra eftirlitskerfi okkar er haldin skrá yfir þær ábendingar sem okkur berast. Öll tilheyrandi gögn eru vistuð með ábendingunum, ásamt niðurstöðu og afstöðu Sjóvár til þeirra, og geymd að lágmarki í fimm ár.
Gætt er þess að farið sé með allar persónugreinanlegar upplýsingar sem hugsanlega gætu fylgt kvörtunum í samræmi við lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Telji viðskiptavinur að mál hans hafi ekki fengið ásættanlega umfjöllun eða úrlausn í samræmi við lög eða reglur getur hann leitað til Úrskurðanefndar í vátryggingamálum.
Innri endurskoðandi og/eða innri úttektaraðilar Sjóvár framkvæma reglulega úttektir á því hvort unnið sé samkvæmt þessari stefnu og á verkferlinu í kringum úrvinnslu ábendinga. Þá fá umsjónar- og úrlausnaraðilar reglubundna þjálfun í móttöku og afgreiðslu ábendinga til þess að ganga úr skugga um að farið sé með úrlausn þeirra af fagmennsku og kostgæfni.