Stefna um sjálfbærni og samfélagsábyrgð
Hlutverk Sjóvár er að tryggja verðmætin í lífi fólks.
Við hjá Sjóvá viljum starfa í sátt við samfélag og umhverfi. Með því að samþætta sjálfbærni og samfélagslega ábyrga starfsemi stuðlum við að arðsemi og vexti til framtíðar til hagsbóta fyrir samfélag, viðskiptavini, starfsfólk og hluthafa.
Sjóvá leggur sitt af mörkum til að stuðla að sjálfbærni og vernd umhverfisins með því að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar með markvissum aðgerðum og ábyrgri og meðvitaðri nýtingu auðlinda.
Sjóvá leggur áherslu á að veita framúrskarandi þjónustu og tryggja að þjónustan sé aðgengileg og í takt við þarfir og vilja viðskiptavina. Starfsánægja er mikilvæg forsenda ánægðra viðskiptavina. Sjóvá vill með góðum starfsaðstæðum tryggja að vera ávallt samkeppnishæf og geti ráðið til sín framúrskarandi starfsfólk. Sjóvá hefur um árabil unnið markvisst að jafnréttismálum og lagt áherslu á að vera í fararbroddi í málaflokknum. Stefna okkar í jafnréttismálum byggir á mannréttindastefnu. Sjóvá hefur í heiðri grundvallarmannréttindi eins og þeim er lýst í alþjóðasamningum.
Sjóvá fylgir í hvívetna þeim lögum og reglum sem um starfsemina gilda. Leitast er við að stjórnarhættir séu í samræmi við leiðbeiningar um stjórnarhætti og þær kröfur sem gerðar eru til félaga í samstæðunni sem eru eftirlitsskyldir aðilar og skráð í kauphöll. Sjóvá hefur skýra stefnu um að vinna gegn hvers konar spillingu, glæpsamlegri starfsemi og peningaþvætti í öllum viðskiptum.
Hagsældaráherslur Sjóvár snúa að hlutverki Sjóvár sem þjónustufyrirtækis í fremstu röð og trausts vinnuveitanda með heilbrigðan rekstur. Nýsköpun og sífelld þróun vöru og þjónustu stuðla að hagsæld og árangri. Sjóvá styður við samfélagið og félagslega grósku með forvarnastarfi, styrkjum og markvissu samstarfi.
Leiðir
Vegvísar Sjóvár byggja undir áreiðanleika og gagnsæi starfseminnar. Þeir eru; verum á undan – höfum það einfalt – segjum það eins og það er – verum til staðar. Starfsfólki er skylt að fylgja útgefnum siðareglum samstæðunnar sem eru grunnviðmið fyrir góða viðskiptahætti og siðferði í viðskiptum.
Settar hafa verið fram áherslur og metnaðarfull markmið um ánægju starfsfólks, ánægju viðskiptavina, þróun stafrænnar þjónustu og samþættingu hennar við persónulega ráðgjöf, sem og samfélagslega ábyrgð.
Áherslur Sjóvár í sjálfbærni og samfélagslegri ábyrgð taka einnig mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og vinnum við stöðugt að því að auka samþættingu þeirra markmiða við starfsemina. Við leggjum áherslu á eftirfarandi fimm markmið sem tengjast eðli rekstrarins; 3 - Heilsa og vellíðan, 5 - Jafnrétti kynjanna, 8 - Góð atvinna og hagvöxtur, 12 - Ábyrg neysla og framleiðsla og 13 - Aðgerðir í loftslagsmálum.
Settir hafa verið fram lykilmælikvarðar sem til viðbótar við aðra rekstrarmælikvarða styðja við árangur á sviði stefnunnar. Árlega er gerð aðgerðaáætlun á sviði sjálfbærni og samfélagsábyrgðar og árangur liðins árs mældur.
Hlutverk Sjóvá er að tryggja verðmætin í lífi fólks
Við sinnum hlutverki okkar með því að lágmarka áhættu viðskiptavina sem lenda í tjóni og með því að vinna faglega að því að takmarka áhættu og tjón með markvissum forvörnum.
Kjarnastarfsemin snýst um að mæta áskorunum í samfélaginu með nýjum lausnum og framúrskarandi þjónustu og stuðla um leið að langtímaávinningi og arðsemi af rekstri félagsins til hagsbóta fyrir samfélagið, viðskiptavini og hluthafa. Við byggjum á áratuga reynslu og sterkum tengslum við heimili og atvinnulíf. Við höfum á að skipa sterkri liðsheild starfsfólks og eigum dýrmætt samstarf við viðskiptavini og samtök um forvarnir og samfélagsmál. Með stuðningi við forvarna- og velferðarmál stuðlum við að öruggara samfélagi og auknum lífsgæðum. Okkar markmið er vera fyrsti kostur viðskiptavina við val á tryggingafélagi, eftirsóknarverður vinnustaður og álitlegur fjárfestingarkostur.
Við náum þessum markmiðum og stuðlum jafnframt að sjálfbærri þróun og arðsemi og vexti til framtíðar með góðum og gagnsæjum viðskiptaháttum, með því að vera leiðandi í forvörnum og með því að starfa í sátt við umhverfið.