Farsælt samstarf í 25 ár
Allt frá stofnun Slysavarnafélagsins Landsbjargar, árið 1999, hefur Sjóvá verið aðalstyrktaraðili samtakanna og átt farsælt samstarf við samtökin í tengslum við ýmis forvarnaverkefni, öryggismál og tryggingar. Sjóvá tryggir eignir og búnað björgunarsveita um allt land og sér til þess að björgunarfólk samtakanna, sem oft starfar við mjög erfiðar aðstæður, sé eins vel tryggt og kostur er.
Félögin vinna náið saman að ýmsum öryggismálum og forvarnaverkefnum. Í kringum flugeldasölu um áramót er lögð áhersla á notkun öryggisgleraugna og Sjóvá hefur einnig verið bakhjarl Landsbjargar vegna endurhönnunar og sölu björgunarsveita um allt land á Björgvinsbeltinu. Önnur samstarfsverkefni eru vefurinn SafeTravel.is og Hálendisvaktin þar sem hugað er að öryggi innlendra og erlendra ferðamanna. Þá höfum við unnið með Landsbjörg að Öryggisakademíunni og Slysavarnaskóla sjómanna.
Nýlega styrkti Sjóvá félagið um 142,5 milljónir til kaupa á þremur nýjum skipum en Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur ráðist í endurnýjun allra 13 björgunarskipa sinna. Fyrsta nýja björgunarskipið, Þór, kom til Vestmannaeyja í lok árs 2022. Annað björgunarskipið, Sigurvin, var afhent á Siglufirði í ársbyrjun 2023 og það þriðja, Jóhannes Briem, kom til Reykjavíkur í lok árs 2023. Skipin eru með ganghraða allt að 30 sjómílur og búin nútíma tæknibúnaði, hitamyndavél og botnsjá. Þau hafa þegar sannað gildi sitt og er hafin vinna við fjórða skipið. Við hjá Sjóvá erum afar stolt af því að geta stutt við þetta umfangsmikla og mikilvæga verkefni félaga okkar hjá Landsbjörg en nýju björgunarskipin tryggja stóraukið öryggi, bæði á sjó og landi.