Forvarnir og minni sóun
Áherslur Sjóvár í forvörnum tengjast markmiði 3 um heilsu og vellíðan þar sem sett eru fram markmið um helmings fækkun alvarlega slasaðra og dauðsfalla vegna umferðarslysa fyrir árið 2030 og markmiði 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu um að draga verulega úr sóun með forvörnum, minnkun úrgangs, aukinni endurvinnslu og endurnýtingu. Stærstu forvarnaverkefni Sjóvár á árinu 2020 snéru að áhættuskoðunum og ráðgjöf til viðskiptavina á fyrirtækjamarkaði og árveknisátaki um mikilvægi notkunar endurskinsmerkja í samstarfi við Slysavarnafélagið Landsbjörgu.
Sjóvá hefur um árabil verið aðalbakhjarl Landsbjargar og vinnur þétt með samtökunum að fjölbreyttum verkefnum á sviði forvarna, öryggismála og trygginga. Í tjónum og tjónavinnslu hefur verið leitast við að minnka sóun og stuðla að umhverfisvænum lausnum. Er það gert með því að nýta notaða hluti sem varahluti eftir föngum og gera við framrúður í stað þess að skipta þeim út ef þess er kostur. Leitast er við að minnka sóun sem felur í sér að viðskiptavinir hafa val um að fá bætur og nýta áfram minna skemmda og viðgerðarhæfa muni, fremur en að þeir fari til förgunar og nýir keyptir.
Jafnrétti
Sjóvá hefur um árabil lagt áherslu á að tryggja jöfn tækifæri og jafnrétti kynja til ábyrgðar og launa í samræmi við heimsmarkmið 5 og 8. Mannréttindastefna og árleg aðgerðaáætlun eru rammi utan um framkvæmd stefnunnar. Sjóvá hefur frá árinu 2014 haft jafnlaunavottun sem staðfestir að í félaginu er virkt jafnlaunakerfi og hefur launamunur alltaf mælst milli 0-2%.
Félagið fékk í ársbyrjun 2021 Hvatningarverðlaunum jafnréttismála sem árlega eru veitt fyrirtæki sem hefur stuðlað að jafnrétti á markvissan hátt í starfsemi sinni. Til að deila þekkingu sinni og styðja aðra til árangurs á sviði jafnréttismála styrkir Sjóvá Jafnvægisvogina sem er nýtt hreyfiaflsverkefni FKA og forsætisráðuneytisins sem hefur það markmið að auka jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar íslenskra fyrirtækja og styður einnig starfsemi UAK, Ungra athafnakvenna.
Umhverfisstefna
Félagið hefur sett sér umhverfisstefnu, fylgist með þróun umhverfisvísa og notkunar auðlinda í rekstrinum og leitast við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Um 40% bíla í rekstri Sjóvár eru nú raf- og tvinnbílar og markmið verið sett um að hækka hlutfall þeirra. Sjóvá hefur kolefnisjafnað eigin losun vegna aksturs og flugsamgangna í samstarfi við Kolvið frá árinu 2015. Sjóvá styrkti Neyðarvarnir Rauða kross Íslands á árinu til að bæta aðbúnað við uppsetningu fjöldahjálparstöðva en þörf fyrir þær hefur aukist mikið í tengslum við veðurofsa og náttúruhamfarir. Er það í samræmi við heimsmarkmið 12 um að auka viðbragðsáætlanir og viðbúnað vegna vár af völdum náttúruhamfara.
UFS áhættumat
UFS áhættumat Reitunar á frammistöðu Sjóvár á sviði sjálfbærni liggur nú fyrir og fékk Sjóvá einkunnina B1 og 80 stig af 100 mögulegum sem telst góð einkunn.
Meðaltal íslenska markaðarins stendur nú í 71 stigi af 100 mögulegum hjá þeim félögum sem Reitun hefur tekið út.
Sjóvá mælist yfir meðaltali í öllum flokkum (umhverfisþættir, félagsþættir og stjórnarhættir) í samanburði við önnur félög sem metin hafa verið. Samantekt matsins og nánari upplýsingar má nálgast hér.
Matið gerir grein fyrir hvernig fyrirtæki standa frammi fyrir áhættum sem snúa að umhverfis- og félagsþáttum og stjórnarháttum. UFS (e. ESG) mat er framkvæmt fyrir hönd fjárfesta á útgefendum verðbréfa sem nýta matið til að veita félögum í eignasöfnum sínum aðhald og ýta undir framþróun á þessum sviðum.