Við hjá Sjóvá höfum um langa hríð lagt ríka áherslu á sjálfbærni og samfélagsábyrgð í okkar starfi. Í samræmi við stefnu okkar í þessum málum höfum við samið siðareglur fyrir birgja okkar sem við förum fram á að þeir samþykki. Reglurnar ramma inn áherslur okkar og samstarfsaðila okkar í sjálfbærnimálum, enda er samvinna lykilatriði þegar kemur að sjálfbærni til að sem bestur árangur náist.
Siðareglunum er ætlað að stuðla að því að kröfur um góða viðskiptahætti og siðferði séu uppfylltar hjá birgjum okkar og í allri virðiskeðju þeirra. Þónokkur fyrirtæki hafa þegar farið þessa leið, að fara fram á að birgjar undirriti siðareglur, bæði til að tryggja að unnið sé með sjálfbærum hætti í allri virðiskeðjunni og til að auka enn meðvitund um mikilvægi þess að haga starfseminni á ábyrgan hátt.
Með aukinni áherslu á sjálfbærni og auknum kröfum til fyrirtækja í þeim efnum má gera ráð fyrir að sífellt fleiri fyrirtæki muni óska eftir því að birgjar sínir undirriti sambærilegar siðareglur eða geri jafnvel kröfu um það.
Siðareglurnar eru í nokkrum liðum sem flokkast undir mannréttindi, vinnumarkað, umhverfismál og viðskiptahætti. Með því að undirrita þær skuldbindur birgir sig t.d. til að hafa í heiðri grundvallarmannréttindi, tryggja öryggi starfsfólks og stuðla að sjálfbærni og vernd umhverfisins, svo eitthvað sé nefnt.
Siðareglurnar eru alls ekki flóknar og má gera ráð fyrir að langflestir birgjar okkar hagi starfsemi sinni eftir þeim nú þegar.
Ef þú ert einn af birgjum okkar og átt eftir að undirrita siðareglurnar þá biðjum við þig að hafa samband við okkur með því að senda póst á halldora.ingimarsdottir@sjova.is og við sendum þér skjal sem þú getur undirritað með rafrænum skilríkjum.