Hjólreiðar njóta sívaxandi vinsælda hérlendis eins og við sjáum vel úti í umferðinni. Það taka einnig sífellt fleiri þátt í hjólreiðakeppnum hér heima og erlendis. Það er mikilvægt að þeir sem stunda hjólreiðar kynni sér vel hvernig þeir geta tryggt sig og hvað þeir geta gert til að stuðla að öryggi sínu og annarra í keppnum. Þessir hlutir voru til umfjöllunar á fjölsóttum morgunfundi sem við hjá Sjóvá héldum nú í morgun.
Á fundinum fór María Sæmundsdóttir, fulltrúi í reglunefnd Hjólreiðasambands Íslands og mótsstjóri, yfir nýjar reglur um Íslandsmeistaramót og bikarmót sem sambandið vinnur nú að. Reglurnar taka á fjölmörgu sem snýr að öryggi keppenda og mikilvægt að þeir sem ætla að taka þátt í hjólreiðakeppnum í sumar kynni sér þær vel.
Hallgrímur Jónsson og Vigfús M. Vigfússon, vörustjórar hjá Sjóvá, ræddu síðan um hvaða tryggingar hjólreiðafólk þarf að hafa í götu- og fjallahjólreiðum og í keppnum hérlendis og erlendis. Töluðu þeir m.a. um hvernig fólk þarf að tryggja sig með ólíkum hætti eftir því hvort það er afreksfólk í íþróttinni eða ekki. Eins þarf að taka inn í myndina hvort fólk starfar sjálfstætt eða sem launþegi, þar sem réttindi þessara hópa eru ólík. Að auki var farið yfir tryggingar á búnaði og hvernig þarf að tryggja sig þegar hjólað er erlendis.
Það var mjög ánægjulegt hversu margt hjólreiðafólk mætti á fundinn og viljum við þakka því kærlega fyrir komuna og fyrir góðar umræður um þessi mál.
Hér fyrir neðan eru tenglar á glærurnar frá fyrirlesurunum og upptaka frá fundinum.
Hjólreiðatryggingar - Hallgrímur Jónsson og Vigfús M. Vigfússon