Fimmtudaginn 31. maí kl. 18:00 - 20:00 verður haldið hjólreiðanámskeið fyrir þá sem vilja læra að hjóla í hóp.
Á námskeiðinu verður meðal annars farið yfir hvernig bendingar og ýmis önnur samskipti eru notuð þegar margir hjóla saman, hvernig fylgja á línu og hvernig almenn tillitsemi getur skipt öllu fyrir öryggi hjólreiðafólks og annarra vegfarenda.
Gerð verður braut á planinu við Sjóvá, Kringlunni 5, þar sem þátttakendur æfa beygjur og að hjóla saman tvö og tvö. Eftir það verður hjólað í akandi umferð og farið yfir hvernig best er að staðsetja sig þar sem hjólreiðamaður, hvernig fara á í og út úr hringtorgi og fleira.
Námskeiðið getur til dæmis nýst þeim vel sem ætla að taka þátt í hjólreiðakeppni í sumar, þar sem mikilvægt er að keppendur hafi öðlast færni í að hjóla í stórum hóp þegar keppt er á slíkum mótum.
Leiðbeinendur eru Þorvaldur Daníelsson, oft kenndur við Hjólakraft og Reiðhjólabændur og Ása Guðný Ásgeirsdóttir, sem hefur mikla reynslu af keppnishjólreiðum.
Námskeiðið er ókeypis en fjöldi þátttakenda er takmarkaður og nauðsynlegt að skrá sig hér fyrir neðan. Þátttakendur verða að hafa náð 16 ára aldri.
Ása Guðný ræddi nýlega um námskeiðið við Fréttablaðið og má sjá viðtalið hér.
Vinsamlegast athugaðu að með því að skrá þig á námskeiðið samþykkir þú að við sendum þér SMS áminningu í uppgefið farsímanúmer deginum fyrir námskeiðið. Upplýsingarnar verða ekki notaðar með öðrum hætti.