Sjóvá hefur ákveðið að viðskiptavinir fái maígjalddaga lögboðinna ökutækjatrygginga einkabíla viðskiptavina endurgreiddan á þessu ári, þótt tryggingarnar verði áfram í fullu gildi.
Sjóva felldi niður iðgjöld ökutækjatrygginga í maí 2020, þegar lokanir í samfélaginu vegna covid stóðu sem hæst. Afkoma fyrirtækisins hefur verið góð og tjónaþróun hagfelld. Viðskiptavinir Sjóvá hafa fengið 1.300 milljónir í Stofnendurgreiðslu síðustu tvö ár. Með niðurfellingu gjalddaga í maí 2020 og endurgreiðslu nú hafa viðskiptavinir Sjóvá því samtals fengið um 2.600 milljónir endurgreidda eða niðurfelldar á tveggja ára tímabili.
"Okkur finnst sanngjarnt að koma til móts við viðskiptavini okkar með þessum hætti. Nú lítur út fyrir að óvenjulegu tímabili sé að ljúka sem hefur verið samfélaginu krefjandi. Rekstur félagsins hefur gengið vel í gegnum þennan tíma og við viljum að viðskiptavinir okkar njóti góðs af því. Þess vegna ráðumst við í að fella niður iðgjöld lögboðinna bifreiðatrygginga líkt og í maí 2020.
Það er von okkar að framundan séu betri tímar og líf okkar allra muni fljótlega færast aftur í eðlilegt horf." - Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá
Þann 1. maí munum við birta upplýsingar á Mínum síðum og þá verður hægt að sjá hvað þetta þýðir nákvæmlega fyrir hvern og einn.