Í fyrirsögn fréttar blaðsins er því slegið upp að „Álftaneslaugin fjármagni Sjóvá.“
Þetta rangt. Um er að ræða hefðbundið fyrirtækjaskuldarbréf á fasteignafélagið Fasteign með veðum í leigugreiðslum sveitarfélagsins af íþróttamannvirkjum og skólasvæði. Umrætt skuldabréf nemur einungis um 2% af heildareignum félagsins. Sundlaugin er meðal eigna sveitarfélagsins sem standa til tryggingar þessara greiðslna. Fjárhagur sveitarfélagsins hefur þannig hverfandi áhrif á eignasafn Sjóvár.
Þá skal undirstrikað að 73% af eignum sem settar voru inní félagið við stofnun þess voru ríkistryggð skuldarbréf. Það hefði styrkt umfjöllun Morgunblaðsins að meðal þeirra 16 milljarða sem sett voru inn í félagið voru ríkistryggð skuldarbréf að verðmæti 11,6 milljarða króna.
Í greininni er því haldið fram að ofangreint skuldabréf hafi verið hluti af framlagi ríkisins inn í Sjóvá. Þetta er rangt. Umrætt skuldabréf var meðal þeirra eigna sem Íslandsbanki lagði fram. Íslenska ríkið er ekki meðal eigenda Sjóvár. Félagið er að 90,7% í eigu SAT-eignarhaldsfélags og 9,3% í eigu Íslandsbanka.
Þá er tiltekið í greininni að bréf í Askar Capital haf verið lögð inn í Sjóvá. Hinsvegar er látið hjá líða að nefna að umrætt skuldarbréf er að fullu tryggt með veðum í skuldabréfum á Landsvirkjun.
Í greininni kemur fram að SA Tryggingar hf. Hafi verið stofnaðar á „rústum gömlu Sjóvár“ sem hafi orðið gjaldþrota. Þetta er rangt. Gamla félaginu var skipt upp í fjárfestinga og tryggingastarfsemi. Sjóva byggir á tryggingastarfseminni sem þarna var aðskilin. Fjárfestingastarfsemin heyrir nú undir SJ Eignarhaldsfélag og er Sjóvá óviðkomandi. Félagið hefur ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta.
Allar upplýsingar um stofnun Sjóvár og stofnfjárframlag eigenda eru opinberar og hafa verið aðgengilegar hjá Fyrirtækjaskrá frá stofnun félagsins í september 2009.
Þá skal áréttað að allar eignir sem settar voru inn í félagið af núverandi eigendum voru metnar af þriðja aðila og yfirfarnar af Fjármálaeftirlitinu sem samþykkti matið.
Félagið er nú í opnu söluferli sem er í umsjón Fyrirtækjaráðgjafar Íslandsbanka og eiga nýir eigendur kost á því að semja við núverandi eigendur um að samhliða sölu sé eignum félagsins skipt út fyrir nýjar. Það verður því á valdi nýrra eigenda að taka ákvörðun um samsetningu eignasafns Sjóvár til framtíðar.