-
Vátryggingastarfsemi og fjárfestingar tengdar fasteignaverkefnum hafa verið aðskildar
-
Nýtt félag stofnað um vátryggingastarfsemi félagsins undir merkjum Sjóvár
-
Nýir eigendur Sjóvá eru Glitnir (18%), SAT eignarhaldsfélag (73%) og Íslandsbanki (9%)
-
Rannsókn yfirvalda snertir ekki núverandi vátryggingastarfsemi félagsins
Glitnir, SAT eignarhaldsfélag (félag í eigu Glitnis) og Íslandsbanki, hafa lagt um 16 milljarða inn í Sjóvá til að bæta eiginfjárstöðu félagsins og tryggja rekstur þess til framtíðar. Ríkissjóður hefur veitt SAT eignarhaldsfélagi fyrirgreiðslu, í formi skuldabréfa, gegn veði í hlutafjáreign SAT eignarhaldsfélags í Sjóvá. Með aðkomu sinni vilja stjórnvöld standa vörð um kröfur ríkisins og um leið hagsmuni fjölmargra vátryggingataka. Hafinn verður undirbúningur að formlegu söluferli Sjóvár á næstu mánuðum.
Með endurskipulagningunni uppfyllir Sjóvá öll skilyrði Fjármálaeftirlitsins um vátryggingastarfsemi, félagið hefur nægar eignir á móti vátryggingaskuld og eiginfjárstaða þess er traust.
Sú rannsókn sem nú stendur yfir af hálfu yfirvalda snertir í engu núverandi starfsemi Sjóvár. Starfsmenn félagsins munu veita yfirvöldum allar upplýsingar og aðstoða við rannsókn málsins eins og kostur er.
Hörður Arnarson, forstjóri Sjóvár:
,,Ég er afar ánægður með þessa niðurstöðu. Með víðtæku samstarfi Glitnis, Íslandsbanka, stjórnvalda og Fjármálaeftirlitsins hefur rekstur Sjóvár verið tryggður til framtíðar sem og hagsmunir vátryggingataka félagsins. Sjóvá mun hér eftir sem hingað til leggja höfuðáherslu á að veita viðskiptavinum sínum fyrsta flokks þjónustu og vera í fararbroddi á íslenskum vátryggingamarkaði. ”
Nánari upplýsingar veitir:
Hörður Arnarson, forstjóri Sjóvár, sími: 440 2002, tölvupóstur: hordur.arnarson@sjova.is.