Sjóvá hefur tekið saman tölur um helstu ástæður umferðar-óhappa í Reykjavík árið 2003 og hvar þau verða.
Í skýrslu félagsins kemur fram að skráð tjón í Reykjavík voru rúmlega 2.800 og í þeim slösuðust 418 einstaklingar. Ef þessar tölur eru framreiknaðar, út frá markaðshlutdeild félagsins, má gera ráð fyrir að um 8.200 bótaskyld tjón hafi orðið í Reykjavík þar sem rúmlega 1200 manns slösuðust, eða 3-4 einstaklingar í um 22 tjónum á degi hverjum.Flest tjón við gatnamót
Í skýrslunni kemur fram að flest umferðaróhappanna verða á eða við gatnamót. Af þeim sem slösuðust í umferðinni í Reykjavík árið 2003 slösuðust 69% á eða við gatnamót. Sem fyrr eru aftanákeyrslur algengustu tjónin á gatnamótum og á sumum þeirra eru aftanákeyrslur allt að 90% þeirra tjóna sem þar eru skráð.
Rétt eins og liðin ár, verða flest umferðaróhöppin við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar og þar slasast einnig flestir. Við þessi gatnamót voru 73% tjónanna vegna aftanákeyrslna en 12% tjónanna urðu þar sem ökumenn tóku vinstri beygju af Kringlumýrarbraut yfir á Miklubraut í veg fyrir umferð sem kom á móti.
Gatnaframkvæmdir valda slysum
Það vekur athygli hve tjónatíðni jókst á árinu á gatnamótum Reykjanesbrautar/ Smiðjuvegar og Stekkjabakka. Þessi gatnamót voru í 16-18 sæti yfir tjónafjölda árið 2002 en skutust upp í 2. sætið í fyrra. Flest tjónin voru aftanákeyrslur, eins og svo víða á öðrum gatnamótum, en óvenju hátt hlutfall tjóna var við akreinaskipti eða 36%. Flest þeirra mátti rekja til þrenginga sem voru vegna framkvæmda.
Mikill kostnaður samfélagsins
Gera má ráð fyrir að kostnaður tryggingafélaganna vegna bílatjóna í Reykjavík einni hafi numið um 3,9-4,5 milljörðum króna. Kostnaður sem tjónvaldar fengu ekki bættan og sátu því uppi með, var um 1100 milljónir króna en kostnaður samfélagsins, s.s. sjúkrakostnaður, kostnaður vegna endurhæfingar og bótagreiðslna vegna þessara tjóna var um 3 milljarðar króna.
Frekari upplýsingar veitir Einar Guðmundsson, forvarnarfulltrúi Sjóvá í síma 440 2023 (einar.gudmundsson@sjova.is) eða Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri tjónasviðs Sjóvá í síma 440 2021.
Meðfylgjandi er skýrsla um algengustu tjónin í Reykjavík árið 2003.