Miðvikudaginn 18.september 2013 var Umferðarsáttmálinn afhentur forseta Íslands herra Ólafi Ragnari Grímssyni. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu átti frumkvæðið að verkefninu í samstarfi við starfsmenn Samgöngustofu og var verkefninu miðlað til almennings undir nafninu "Gerum það saman", á sérstakri heimasíðu og á Facebook síðu lögreglunnar. 14 manna hópur, karla og kvenna á öllum aldri var settur saman eftir að auglýst hafði verið eftir þátttakendum til að vinna að gerð sáttmálans. Með þessu var leitað til vegfarenda sjálfra til að kanna hvað það er sem þeir vilja sjá í umferðinni, hjá gangandi, hjólandi og akandi vegfarendum.