Óafturkallanleg tilnefning er þannig að rétthafi bóta þarf að samþykkja tilnefninguna með undirskrift sinni. Réttaráhrif þess að tilnefnt er með óafturkallanlegum hætti eru þau að ekki er hægt að breyta tilnefningunni nema með samþykki rétthafans. Réttur þess sem tekur trygginguna er ótvíræður til þess að haga tilnefningu með þessum hætti og því ekki endilega okkar hlutverk að ráða honum frá því. Það er hins vegar mikilvægt að gera viðkomandi grein fyrir því að í óafturkallanlegri tilnefningu felst það að ekki er hægt að breyta henni nema með samþykki þess sem tilnefndur er, hversu sanngjarnt eða ósanngjarnt það kann síðan að vera þegar fram í sækir og ef kemur til tjóns.
Afturkallanleg tilnefning
Afturkallanleg tilnefning er hins vegar með þeim hætti gerð að það er líftryggingartakinn sem tilnefnir rétthafa án þess að sá hinn sami þurfi að skrifa undir það. Réttaráhrif þessa eru þau að líftryggingartakinn getur breytt tilnefningunni hvenær sem er sjálfur. Þetta getur hann gert án þess að rétthafinn hafi nokkuð um það að segja.
Hvað er til ráða?
Margir spurðu sig væntanlega, þegar þeir lásu frétt 24 stunda hvort ekkert sé til ráða fyrir lögerfingjana í þessu tilviki. Því er til að svara að í 105.gr. laga um vátryggingasamninga nr. 30/2004 kemur fram að ákveðnir aðilar geti gert kröfu um að tilnefningu rétthafa sé hnekkt. Ekki skiptir máli hvort þeir vilji hnekkja afturkallanlegri eða óafturkallanlegri tilnefningu. Það þarf hins vegar að uppfylla nokkur skilyrði. Þeir einir geta gert kröfu sem voru á framfæri vátryggingartaka eða hann var skuldbundinn til að framfæra þegar hann lést. Einnig þarf það að hafa verið bersýnilega ósanngjarnt að sá sem tilnefndur var fái vátryggingafjárhæðina greidda.
Skráður rétthafi
Hjá Sjóvá vekjum við athygli fólks á tilnefningum með því að upplýsa um skráðan rétthafa á skírteini og fara þær upplýsingar út til vátryggingartaka með hverri endurnýjun. Einnig má minna á að erfitt er fyrir starfsmann vátryggingafélags að ráðleggja einhverjum að segja upp líftryggingunni sinni eða láta hana niður falla vegna vanskila þar sem þá þarf að skila nýjum heilsufarsupplýsingum og ef forsendur hafa breyst er ekki alveg á hreinu að viðkomandi fái nýja tryggingu. Minnt á að mikilvægt er að taka meðvitaðar ákvarðanir um tilnefningar rétthafa og gera ráðstafanir til að breyta þeim ef aðstæður, t.d. fjölskylduaðstæður breytast. Það er vilji þess líftryggða sem skiptir máli og ef hann velur að tilnefna rétthafa með óafturkallanlegum hætti verður hann að gera sér grein fyrir að breytingar á þeirri skráningu verða bundnar vilja hins tilnefnda.