Sjóvá gerði á dögunum könnun meðal ökumanna um símanotkun undir stýri. Í könnuninni kemur fram að yngstu aldurshóparnir eru líklegastir til að skoða samfélagsmiðla, stjórna tónlist eða senda skilaboð við akstur. Yfir helmingur ökumanna á aldrinum 18-24 ára segist stjórna tónlist í símanum við akstur og 39% 25-34 ára. Hlutfallið hríðfellur með hækkandi aldri.
Til að vekja ungt fólk til umhugsunar um hættuna sem fylgir símanotkun við akstur var máluð 20 metra löng SMS talbóla á norðurbílastæði Verslunarskólans síðdegis í gær. Í bólunni stendur „ok ég er á leiðinni“ en hún endar við bíl sem hefur verið klesst aftan á. Skilaboðin eru þau að meðan þú lítur af veginum, jafnvel þótt ekki sé nema til að skrifa örstutt skilaboð á litlum hraða, getur hvað sem er gerst enda er það eins og að aka blindandi. Uppátækið vakti verulega athygli Verslinga og annarra vegfarenda síðdegis og þegar þeir komu í skólann í morgun.
35% aðspurðra á öllum aldri viðurkenndu í könnuninni að þeir sendi skilaboð við akstur þótt 92% telji það frekar eða mjög hættulegt. Það er því greinilegur munur er á því sem við gerum í akstri og því sem við vitum að er hættulegt.
„Farsímar eru ekki lengur bara símar. Maður er með öfluga tölvu í vasanum. Okkur myndi eflaust blöskra ef við sæjum einhvern með fartölvu í kjöltunni við akstur. En það er í raun enginn munur á því að vera í tölvunni eða símanum. Okkur er orðið eðlislægt að vera sífellt með símann við höndina og þess vegna skynjum við það ekki endilega sem hættulegt athæfi að vesenast í honum. En raunveruleikinn er sá að maður tekur augun af veginum, hugurinn er ekki við aksturinn og höndin er ekki á stýrinu. Það er því mikilvægt að vekja athygli á hættunni sem felst í því að nota farsíma undir stýri,“ segir Fjóla Guðjónsdóttir, sérfræðingur í forvörnum hjá Sjóvá.
Könnunin fylgir í heild sinni þessari tilkynningu. Meðal annarra punkta sem vöktu athygli og koma þar fram er að karlar á aldrinum 35-44 ára nota símann mest í bílnum, eða 24% þeirra. Þá má nefna að símanotkun undir stýri eykst með hækkandi tekjum.
Sigurjón Andrésson hjá Sjóvá er til viðtals um niðurstöður könnunarinnar og uppátækið við Verslunarskólann í síma 844-2022.