„Vel heppnuð endurskipulagning skilar góðum rekstri.“
Aðalfundur Sjóvá-Almennra trygginga hf. var haldin föstudaginn 30. apríl og var ársreikningur félagsins samþykktur. Stjórn félagsins er óbreytt og er skipuð Heimi V Haraldssyni stjórnarformanni, Ernu Gísladóttur, Kristjáni Ragnarssyni, Þórhildi Ólöfu Helgadóttur og Þórólfi Jónssyni.
Sjóvá-Almennar tryggingar hf. var stofnað og fékk starfsleyfi í lok september síðasta árs í þeim tilgangi að tryggja hagsmuni viðskiptavina félagsins með því að taka yfir vátryggingastofn, -eignir og –skuldbindingar eldra félags með sama nafni. Nýju félagi var lagt til eigið fé við stofnun þess og uppfyllti félagið með því gjaldþolskröfur Fjármálaeftirlitsins.
Ársreikningur Sjóvár fyrir 2009 nær yfir síðustu þrjá mánuði ársins.
-
Hagnaður Sjóvár af reglulegri starfsemi á tímabilinu var 317 milljónir fyrir skatta
- Gjaldþol Sjóvár hefur styrkst verulega frá stofnun
- Óefnislegar eignir voru færðar niður um 6,6 milljarða
Vátryggingarekstur 2009 í samanburði við fyrra ár
- Iðgjaldatekjur hækkuðu um 8%
- Tjónakostnaður hækkaði um 4%
- Rekstrarkostnaður lækkaði um 3%
Sterkur vátryggingarekstur
Vátryggingarekstur Sjóvár gengur vel þrátt fyrir erfiðar og miklar breytingar sem tengjast fjárfestingastarfsemi eldra félags. Vátryggingarekstur Sjóvár skilaði 317 milljónum í hagnað fyrir skatta og sérstaka niðurfærslu óefnislegra eigna. Reksturinn er í góðu jafnvægi og hefur félagið haldið stöðu sinni á tryggingamarkaði þrátt fyrir mikla samkeppni.
Gott samsett hlutfall og vaxandi gjaldþol
Rekstrarkostnaður Sjóvár hefur lækkað í hlutfalli við iðgjöld en þessir liðir ásamt tjónum mynda svokallað samsett hlutfall. Hlutfallið segir til um hvernig iðgjöld standa undir rekstri og tjónakostnaði og er Sjóvá með hlutfallið 100% sem er það lægsta á tryggingamarkaði hér á landi.
Með áframhaldandi góðum rekstri hefur gjaldþolshlutfall félagsins styrkst og er um áramót 1,83.
Lárus Ásgeirsson, forstjóri:
„Ég er sáttur við niðurstöðu ársins sem sýnir að vel heppnuð endurskipulagning hefur skilað góðum rekstri. Einkennismerki Sjóvár er og hefur verið vel rekin vátryggingarstarfsemi. Sú starfsemi gekk mjög vel á sama tíma og fjárfestingahlutinn misfórst. Óefnislegar eignir eru nú færðar niður í bókum félagins. Vegna efnahagslegrar óvissu og varúðar í áætlanagerð til framtíðar var nauðsynlegt að færa niður óefnislegar eignir félagsins um 6,6 milljarða sem skýrir tap tímabilsins upp á 5,1 milljarð. Þessi umtalsverða niðurfærsla óefnislegra eigna rýrir ekki gjaldþol Sjóvár eða stöðu félagsins gagnvart viðskiptavinum og eftirlitsaðilum. Starfsmenn Sjóvár einbeita sér að því að reka gott tryggingafélag og þjóna viðskiptavinum okkar sem haldið hafa tryggð við félagið.“
Opið söluferli Sjóvár hófst í byrjun árs 2010 og er mikill áhugi á félaginu. Söluferlinu er ekki lokið en það er í höndum eigenda og má búast við að því ljúki innan skamms.
Nánari upplýsingar:
Lárus S. Ásgeirsson, forstjóri, sími 440 2000, netfang larus.asgeirsson@sjova.is