Sjóvá styður átakið Stöðvum innbrot sem miðar að því að virkja landsmenn til þess að draga úr innbrotum með því að vakta umhverfi sitt og nýta þær forvarnir sem til eru. Fræðsla Sjóvá um nágrannavörslu hefur þegar sannað gildi sitt og hefur innbrotum, þjófnuðum og skemmdarverkum fækkað í þeim hverfum sem henni hefur verið komið á. Vonast er til að Stöðvum innbrot-átakið bæti um betur.
Á vef Sjóvá má nálgast handbók um nágrannavörslu fyrir þá sem vilja skipuleggja nágrannavörslu í sínu hverfi. Einnig heldur Sjóvá námskeið um nágrannavörslu þar sem kynntar eru þær aðferðir sem þykja hafa heppnast best.
„Við verðum vör við það að fólki er nóg boðið eftir þá hrinu innbrota sem gengið hefur yfir að undanförnu. Það er áratuga reynsla af skipulagðri nágrannavörslu víða um heim og við viljum leggja okkar af mörkum til þess að festa virka nágrannavörslu í sessi hér á landi. Okkar framlag er handbók með ítarlegum leiðbeiningum ásamt námskeiðum og aðgengi að sérfræðingum á sviði forvarna. Framhaldið er síðan í höndum íbúanna sjálfra,“ segir Fjóla Guðjónsdóttir, sérfræðingur í forvörnum hjá Sjóvá.
Sjóvá mun heldur námskeið um nágrannavörslu víða á höfuðborgarsvæðinu á næstu vikum. Þeir sem hafa áhuga á að koma nágrannavörslu ættu að kynna sér málið nánar á sjova.is.
Átakið Stöðvum innbrot er samstarfsverkefni Sjóvá, Símans og Securitas og stutt af Bylgjunni, 112 og Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.