Vegna frétta um landris og mögulegt eldgos á Reykjanesi viljum við vekja athygli á að tjón á fasteignum og lausamuna af völdum eldgosa falla lögum samkvæmt undir Náttúruhamfaratryggingu Íslands (NTÍ). Til að eiga rétt á bótum frá NTÍ vegna tjóns af völdum eldgosa þarf tjónsmunurinn að vera brunatryggður.
Allar húseignir á Íslandi eru brunatryggðar samkvæmt lögum og falla því sjálfkrafa undir tryggingar NTÍ.
Eigendur lausamuna, s.s. innbús eða lagervöru, hafa hins vegar val um hvort þeir brunatryggja þá. Þeir sem eru með lausafé sitt brunatryggt hjá íslensku vátryggingafélagi eiga rétt á bótum frá NTÍ komi til tjóns af völdum eldgosa. Brunatryggingar eru m.a. innifaldar í lausafjártryggingum okkar og innbúsmunir eru brunatryggðir í fjölskyldutryggingum okkar.
Samkvæmt upplýsingum frá NTÍ fæst tjón á skráningarskyldum ökutækjum ekki bætt úr tryggingum þeirra. Tjón sem verður á skráningarskyldum ökutækjum af völdum eldgoss er heldur ekki bætt úr kaskótryggingu okkar.
Ef þú ert á svæðinu í kringum Grindavík og hefur spurningar um vátryggingavernd þína hjá okkur geturðu leitað í umboð okkar að Víkurbraut 46 þar sem Gunnar Már Gunnarsson umboðsmaður tekur vel á móti þér. Einnig er hægt að ná sambandi við hann beint í síma 426-7150. Við minnum ennfremur á netspjallið okkar og útibú okkar í Reykjanesbæ og ráðgjafa okkar í síma 440-2000.
Nánari upplýsingar um NTÍ, eigin áhættu, hvernig tilkynna skal tjón til þeirra og fleira má finna á vef þeirra.