Yfirlýsing frá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Sjóvá) 23. febrúar 2005
Í tilefni af ákvörðun samkeppnisráðs nr. 9/2005, vill Sjóvá koma eftirfarandi á framfæri.
Sjóvá tók á árunum 2001-2002 þátt í samstarfi um upptöku samræmds tjónamatskerfis sem ætlað er að bæta þjónustu við viðskiptavini bifreiðverkstæða, stuðla að auknu gegnsæi verðlagningar og virkari samkeppni. Samstarfið snerist m.a. um að auðvelda viðgerðarverkstæðum að taka upp kerfið en snerist ekki um verð þeirrar þjónustu sem verkstæðin veita. Að mati Sjóvá fól þátttaka félagsins í samstarfinu því ekki í sér brot á ákvæðum samkeppnislaga.Samkeppnisstofnun var hlynnt upptöku nýja tjónamatskerfisins og taldi það samræmast markmiðum samkeppnislaga.
Sjóvá hafði alls engan fjárhagslegan ávinning af samstarfinu sem slíku. Þegar upp var staðið samdi Sjóvá sjálfstætt um verð við hvert og eitt verkstæði, enda er það eðlilegt í þeim samkeppnisrekstri sem þau eru í.
Félagið mun áfrýja ofangreindri ákvörðun til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og eftir atvikum til dómstóla, enda þótt önnur vátryggingafélög hafi valið þann kost að ljúka málinu með samkomulagi við samkeppnisyfirvöld.