Seðlabanki Íslands (áður FME) birti í morgun gagnsæistilkynningu um niðurstöður athugunar á sundurliðun tryggingafélaganna á kostnaði og afsláttum við tilboðsgerð til einstaklinga í ökutækja- og eignatryggingum.
Ein athugasemd var gerð við tilboðsgerð okkar sem sneri að því að ekki væri birt sundurliðun á iðgjaldi ábyrgðartryggingar ökutækis, slysatryggingar ökumanns og eiganda bílrúðutryggingar, og svipaðar athugasemdir voru gerðar við framsetningu tilboða hjá hinum tryggingafélögunum.
Við brugðumst fljótt og vel við þessari ábendingu FME og höfum frá síðustu áramótum birt sundurliðað iðgjald vegna lögboðinna ökutækjatrygginga.
Lögum samkvæmt er skylt að vera með ábyrgðartryggingu ökutækis og slysatryggingu ökumanns hjá sama tryggingafélagi og hafa þessar tryggingar því alltaf verið seldar sem einn pakki hér á landi. Við töldum framsetningu okkar því í samræmi við lög en brugðumst sem fyrr segir fljótt við þegar FME gerði athugasemd við hana.