Leikarinn Aron Már Ólafsson, betur þekktur sem Aron Mola, er ein þekktasta samfélagsmiðlastjarna landsins og gerir þessa dagana garðinn frægan í sjónvarpsþáttunum Ófærð. Fyrir ári síðan eignaðist hann sitt fyrsta barn með unnustu sinni Hildi Skúladóttur.
Aron segir að foreldrahlutverkið hafi eðlilega vaxið þeim í augum til að byrja með en að fæðing sonarins Birnis Blæs hafi breytt lífi þeirra og forgangsröðun til hins betra.
„Tímaskynið breytist mikið þegar maður eignast barn. Maður er ekki lengur að hugsa eina viku, einn mánuð eða eina önn fram í tímann, heldur ár og áratugi. Ég verð að vera til staðar fyrir son minn og fjölskylduna. Heimurinn minnkar einhvern veginn og stækkar í senn. Alls konar hlutir sem manni fannst svo merkilegir og skipta svo miklu máli gera það einfaldlega ekki lengur. Maður er orðinn pabbi og fjölskyldumaður og það eru mjög góð skipti.“
Aron segir að eftir fæðingu Birnis Blæs sé líf þeirra Hildar rólegra og að hann hafi breytt ýmsu í sínum lífsstíl með hagsmuni sonarins í huga.
„Núna tekur maður einn dag í einu og allir dagar eru meira og minna eins. Það skiptir ekki máli hvort það er föstudagur eða þriðjudagur. Næsti morgunn verður alveg eins. Maður þarf að rífa sig í gang eldsnemma, skipta um bleyju og gefa stráknum að borða. Svona skiptir maður bara alveg um gír. Ég hef staðið mig að því að vera að renna gegnum Snapchat og velta fyrir mér af hverju allir virðist vera að fá sér. Svo fattar maður að það er föstudagskvöld. Ég sakna þess ekki neitt að fara út á djammið – maður er ekki að missa af neinu þarna niðri í bæ.
Maður fer líka ósjálfrátt að pæla meira í lífsstílnum sínum og allar breytingar á honum verða mikilvægari þegar maður ber ábyrgð á barni. Núna er ég til dæmis næstum alveg hættur að borða kjöt. Ég minnkaði það því það lætur mér líða betur líkamlega og það er hluti af þessari breyttu sýn á lífið. Manns eigin velferð hefur áhrif á fleiri en mann sjálfan. En svo eru þetta líka litlir hlutir eins og að sitja ekki eins lengi á klósettinu að horfa á Netflix!“
Óléttuprófið keypt daginn eftir Secret Solstice
Aron var merkilega rólegur yfir fréttunum um að þau Hildur ættu von á barni og segir að sér hafi liðið eins og líkaminn hafi strax byrjað að undirbúa hann fyrir nýtt hlutverk.
„Ég hafði verið á Secret Solstice með félaga mínum kvöldið áður þegar Hildur biður mig um að kaupa óléttupróf í apóteki að morgni dags. Þetta kom náttúrulega svolítið á óvart en ég dreif mig a stað. Þetta eru tvær prufur í pakka og á honum stendur að það taki fimm mínútur að fá niðurstöðu. Niðurstaðan kom hins vegar svo hratt að ég var viss um að prófið væri bilað. Þegar seinni prufan skilaði sömu niðurstöðu varð hins vegar ljóst í hvað stefndi.
Það er skrýtin upplifun að fá slíkar fréttir þegar maður er þunnur og svolítið lítill í sér. Á svona fimmtán mínútum var eins heilinn á mér hraðspólaði í gegnum allt líf mitt fram að þessum tímapunkti. Ég held að heilinn á mér hafi verið að endurraða öllu til að undirbúa þennan nýja kafla í lífinu. Eftir það var eins og líkaminn og hugurinn væri tilbúinn í þetta og ég var ég merkilega rólegur yfir þessu. Það breytist náttúrlega þegar sonur minn fæðist. Þá varð þetta raunverulegt.“
Fyrsta vikan var erfið fyrir nýbökuðu foreldrana og Aron segir að þau hafi jafnvel efast um að þau væru raunverulega tilbúin. Þau leituðu sér hjálpar og áttuðu sig þá á því að þessi viðbrögð væru mjög eðlileg.
„Fyrstu vikuna var ég í manísku ástandi, að stússast og reyna að passa upp á fjölskylduna. Ég svaf mjög lítið þennan tíma, enda krassaði ég eftir þessa viku. Það er engum ætlað að keyra á þessum hraða í lengri tíma. Þá fór ég að velta því fyrir mér hvort ég gæti yfirhöfuð gert þetta. Hildur var í svipuðum pælingum og þetta endaði á því að við fórum í viðtalstíma uppi á geðdeild. Það var mjög gott að gera það og við gengum út úr þeim tíma mun léttari. Viðbrögðin okkar voru bara eðlileg.
Þetta undirstrikar í raun hversu mikil tímamót er um að ræða. Maður sjálfur og allt líf manns breytist þegar maður verður foreldri. Við finnum bæði fyrir mjög ríkri ábyrgðartilfinningu gagnvart Birni Blæ. Það er rosalega góð tilfinning, en hún tekur svolítið yfir lífið manns.“
Systurmissirinn ennþá ofarlega í huga
Aron segir að umhyggjan fyrir barninu hafi jafnframt í för með sér að hann hugsi lengra fram í tímann og hvernig hann geti tryggt velferð fjölskyldu sinnar enda hafi hann sjálfur séð hversu mikil áhrif óvænt áföll hafi á fjölskyldur fólks.
„Þegar Birnir var kominn í heiminn var ég ekki einu sinni farinn að pæla í því að tryggja mig. Þetta er önnur af þessum stóru breytingum sem verða þegar maður verður pabbi. Fram að þessum tíma hafði ég aldrei pælt í útgjöldum sem voru „óþarfi“ – útgjöld sem ég fékk sjálfur ekkert fyrir strax.
Ég hef séð það sjálfur hvaða áhrif það getur haft á fjölskyldur þegar einhver fellur frá. Þegar Birnir fæddist fékk ég svona „flashback“ til þess tíma þegar systir mín lést í umferðarslysi fyrir nokkrum árum. Það hafði mikil áhrif á okkur öll, en hafði sérstaklega slæm áhrif á mömmu. Hún varð alvarlega þunglynd, var ekki vinnufær í langan tíma og er enn með áfallastreituröskun.
Stórfjölskyldan og vinir stóðu mjög þétt við bakið á okkur og það var gott að finna fyrir ást um umhyggju. Það var alltaf einhver heima til að tala við, einhver sem eldaði mat og einhver sem tók til og þreif. En eðlilega þá kemur að því að fólk þarf að fara að lifa sínu lífi aftur og þá vorum við ein eftir. Mamma þurfti hins vegar lengri tíma til að jafna sig. Hún hafði ekki það fjárhagslega öryggisnet til að veita sér það svigrúm sem hún þurfti og lenti í því að þurfa að selja íbúðina sína og flytja í aðra minni. Þetta var mér í fersku minni þegar við Hildur fórum að velta því fyrir okkur hvernig við gætum sem best hlúð að framtíð Birnis og tryggt öryggi hans.“
Hugarró á verði tveggja bjóra í mánuði
Úr varð að þau fengu sér líf- og sjúkdómatryggingu og Aron segir að hugarróin sem fylgi því að vita að fjölskyldan hafi fjárhagslegt öryggisnet ef eitthvað óvænt gerist sé þeim afar mikilvæg.
„Auðvitað forðast maður að hugsa um hluti eins og hvað gerist ef maður veikist alvarlega eða fellur frá. Þetta er ömurleg tilhugsun, en þegar aðrir reiða sig á mann, þá hreinlega verður maður að gera ráðstafanir. Við fengum okkur líf- og sjúkdómatryggingu hjá Sjóvá og erum núna öll þrjú tryggð. Það gefur manni hugarró að vita af því að maður hafi andrými til að takast á við vandamálin ef þau koma upp. Svona skapar maður sér bakland og öryggisnet til að treysta á. Það gerir allt erfiðara og þungbærara ef maður þarf að hafa áhyggjur af peningum ofan á allt annað.
Það kom mér líka rosalega á óvart hversu ódýrt þetta er. Fyrir ungt fólk eins og okkur Hildi eru líf- og sjúkdómatryggingar alls ekki dýrar. Þetta er eins og tveir bjórar í mánuði. Hugarróin er miklu meira virði en þessir tveir bjórar.“
Miklu betra að gera hlutina gegnum netið
Að sögn Arons var ferlið að fá trygginguna ekki flókið, en það hafi hins vegar verið nokkuð langt og nákvæmt þegar hann fór í gegnum það. Núna býður Sjóvá hins vegar upp á nýja og einfaldari lausn þar sem hægt er að ganga frá tryggingunni gegnum netið.
„Starfsfólk Sjóvár gerði allt til að gera okkur ferlið auðveldara, en þetta var allt gert á pappír og það að þurfa að ferðast fram og til baka um bæinn til að sækja gögn og vottorð og annað slíkt sem gerði ferlið þyngra í vöfum. Það eru örugglega margir sem nenna ekki að standa í slíku eða finnst kannski óþægilegt að þurfa að svara persónulegum spurningum um heilsufar sitt og lífsstíl frá ókunnugri manneskju.
Þess vegna er þessi nýja lausn – þar sem þú getur keypt þessar tryggingar á netinu – svo sniðug. Fyrir langflesta á þetta að geta gengið á fimmtán mínútum. Það er rosalegur munur að geta gert þetta bara í tölvunni heima hjá sér. Ef þú ert með rafræn skilríki geturðu gengið alveg frá þessu í tölvunni, sem er náttúrulega miklu auðveldara. Ég hefði verið mjög til í það.“