Þar segir að bakktjónum hafi þó fækkað lítillega undanfarin 3 ár. Næst flest tjón í umferðinni verða með þeim hætti að ökumaður ekur á kyrrstæðan hlut eða í 21 prósent tilfella.
Í mörgum tilfellum eiga þessi tjón það sameiginlegt að rekja má orsök þeirra til þess að ökumaður verður fyrir truflun eða hann er í vaxandi mæli að aka og framkvæma aðra hluti á meðan.
Þetta er áhyggjuefni og vill Sjóvá koma því á framfæri við ökumenn að akstur krefjist fullrar athygli og því sé ekki rými til þess að framkvæma aðra hluti samhliða akstri.
Þegar skoðað er við hvaða aðstæður flest slys verða í umferðinni þá kemur í ljós að flest þeirra verða við útafakstur eða í 29% tilfella. Tjón vegna útafaksturs eru hins vegar ekki nema 4% allra tjóna. Útafakstur verður oft við aðstæður þegar ekið er hratt eða þegar bifreið veltur í kjölfar útafaksturs. Líkur á slysi eru miklar, sérstaklega ef ökumenn eða farþegar nota ekki bílbelti. Notkun bílbelta er sem fyrr eitt mikilvægasta öryggistæki bílsins og áminningar um að nota bílbelti eiga alltaf við.
Aftanákeyrslur eru önnur helsta orsök slysa í umferðinni árið 2009 eða í 26% tilfella. Að meðaltali eru afleiðingar slíkra slysa og áverka ekki jafn alvarlegar og vegna útafaksturs. Hins vegar er það svo að áverkar á hnakka og bak sem oft verða í kjölfar aftanákeyrslu geta haft langvarandi afleiðingar fyrir hinn slasaða og jafnvel örorku í för með sér. Sjóvá bendir á að slys vegna aftanákeyrslu geta orsakast á tiltölulega lítilli ferð.
Rétt bil á milli bíla og rétt stilling hnakkapúða eru einföld atriði sem ökumaður getur vanið sig á og getur í mörgum tilfellum komið í veg fyrir áverka vegna aftanáaksturs eða í það minnsta fækkað alvarlegum áverkum vegna þeirra. Áverkar vegna aftanákeyrslu eru oft á tíðum vanmetnir og í mörgum tilfellum er það svo að afleiðingarnar koma ekki í ljós fyrr en að nokkur tími er liðinn frá árekstri. Áríðandi er að auka vitund gagnvart tjónum og slysum vegna aftanákeyrslna.