Sjóvá hefur breytt skipuriti sínu samhliða því að breytingar hafa verið gerðar á framkvæmdastjórn félagsins.
Vátryggingasvið mun breyta um nafn og kallast nú viðskiptaþróun. Undir sviðið heyra stofnstýring og vöruþróun. Þá færast markaðsmál og forvarnir undir sviðið. Elín Þórunn Eiríksdóttir er framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar, en hún var áður framkvæmdastjóri sölu- og ráðgjafar. Lögfræðiþjónusta færist til tjónasviðs og endurtryggingar til fjármálasviðs.
Ómar Svavarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri sölu og ráðgjafar. Ómar starfaði sem framkvæmdastjóri sölu og þjónustusviðs Vodafone frá árinu 2005 og forstjóri frá 2009 en hann starfaði hjá Sjóvá frá 1995 til 2005 síðast sem framkvæmdastjóri einstaklingssviðs.
Áhættustýringu hefur verið skipt upp til að aðgreina verkefni tryggingastærðfræðings, gagnavinnslu og greiningar annars vegar og eftirlitshlutverk áhættustjóra hins vegar. Steinunn Guðjónsdóttir verður forstöðumaður trygginga- og tölfræðigreiningar. Þóra Pálsdóttir hefur verið ráðin áhættustjóri, en hún var áður sérfræðingur í áhættustýringu.
Hermann Björnsson, forstjóri:
„Ég er mjög ánægður með þessar breytingar á skipulagi félagsins og bind miklar vonir við að þær efli okkur enn frekar í samkeppni og síbreytilegu umhverfi þar sem gagnavinnsla og vöruþróun verða nauðsynleg til að svara þörfum markaðarins.“
Meðfylgjandi er nýtt skipurit félagsins. Nánari upplýsingar veitir Hermann Björnsson, forstjóri.