Sjóvá og Slysavarnafélagið Landsbjörg hafa endurnýjað samstarfssamning sem félögin hafa átt með sér allt frá stofnun Landsbjargar árið 1999. Sjóvá mun áfram tryggja björgunarfólk og búnað Landsbjargar og aðildarfélaga um allt land ásamt því að vera aðalstyrktaraðili samtakanna.
Smári Sigurðsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar segir ánægjulegt að samtökin hafi endurnýjað samstarfið við Sjóvá. „Við erum að auka samstarfið frá því sem var, sérstaklega á sviði forvarna. Þar má til dæmis nefna samstarf um aukið öryggi við meðferð flugelda um áramót og samstarfsverkefni um Björgvinsbeltið þar sem við erum að bæta forvarnir með það að markmiði að draga úr slysum í ferðamennsku og ferðaþjónustu,“ segir Smári.
„Við erum afar hreykin af því að tryggja björgunasveitafólkið okkar og búnað þess“, segir Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár. „Það eru meira en 4.200 sjálfboðaliðar um allt land tilbúin að bregðast við útköllum alla daga ársins, nótt sem dag og oft við afar erfiðar aðstæður. Það eru þvílík auðæfi sem við eigum í þessum samtökum og það er okkur hjá Sjóvá kappsmál að björgunarsveitafólk sé eins vel tryggt og kostur er við störf sín sem oft eru við afar krefjandi aðstæður“.