Um helgina fer hið árlega fótboltamót Rey Cup fram í Laugardalnum.
Annað árið í röð munu malavískir drengir frá knattspyrnuakademíunni Ascent Soccer í Suðaustur-Afríku taka þátt í mótinu. Í fyrra unnu þeir alla sína leiki og urðu Rey Cup meistarar í sínum aldursflokki en í ár taka einnig malavískar fótboltastúlkur þátt í mótinu. Er stúlknaliðið það fyrsta frá Malaví sem ferðast til Evrópu til að spila fótbolta.
Það er ánægjulegt að taka þátt í að láta draum þessara ungu afrísku knattspyrnuiðkenda um að ferðast erlendis á fótboltamót verða að veruleika en Sjóvá er einn af íslenskum styrktaraðilum ferðarinnar. Börnin hafa undirbúið sig vel fyrir mótið og verður spennandi að fylgjast með þeim um helgina.
Ascent Soccer vinnur mikilvægt starf í Malaví en knattspyrnuakademían styður við bakið á ungum og efnilegum fótboltaiðkendum og heldur samhliða því úti öflugu skólastarfi.