Sjóvá hefur gengið til samstarfs við Royal & SunAlliance um að veita íslenskum alþjóðafyrirtækjum heildstæða tryggingaþjónustu vegna hagsmuna þeirra erlendis. Royal & SunAlliance er rótgróið tryggingafyrirtæki í Bretlandi og annar stærsti fyrirtækjatryggjandi þar í land en félagið er jafnframt þriðji stærsti vátryggjandi á Norðurlöndum. Með samstarfssamningnum getur Sjóvá nú boðið upp á tryggingaþjónustu í 130 löndum.Það eru mikil tímamót fyrir Sjóvá að geta boðið þessa þjónustu til íslenskra fyrirtækja sem eru með starfsemi erlendis. Samstarfið veitir viðskiptavinum Sjóvá aðgang að þróuðu þjónustuneti Royal & SunAlliance um allan heim og því geta viðskiptavinir nú fengið aðgang að þjónustu í því landi sem trygging er veitt. Þetta er kærkomin nýjung fyrir íslensk alþjóðafyrirtæki, en með þessum hætti má ná fram heildstæðri yfirsýn yfir vátryggingar dótturfélaga og móðurfélags.
Nánari upplýsingar veitir Sveinn Segatta, framkvæmdastjóri Fyrirtækjasviðs í síma 440 2150
Þorgils Óttar Mathiesen forstjóri Sjóvá og David Broome framkvæmdastjóri Alþjóðasviðs Royal & SunAlliance handsala samninginn. Með þeim á myndinni er Liam Bright og Sveinn Segatta.