Samstarfið aukið frá því sem verið hefur
Sjóvá og Slysavarnafélagið Landsbjörg hafa endurnýjað samstarfssamning, sem félögin hafa átt með sér frá stofnun Landsbjargar árið 1999. Sjóvá er sem kunnugt er aðalstyrktaraðili Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Með þeim samningi, sem nú hefur verið gerður, verður samstarfið aukið frá því sem verið hefur, bæði á sviði forvarna og öryggismála. Nýi samningurinn byggir á góðri reynslu af fyrri samningum, en meðal nýlunda nú er aukin tryggingavernd í slysatryggingu björgunarfólks með það að markmiði að gæta enn betur að hagsmunum þeirra sem taka þátt í sjálfboðastarfi á vegum björgunarsveitanna.
Sjóvá hefur í rúman áratug stutt dyggilega við hið einstaka og ósérhlífna sjálfboðaliðastarf Slysavarnafélagsins Landsbjargar og átt nána samvinnu í ýmsum forvarnar- og öryggismálum sem og vátryggingarmálum hinna fjölmörgu björgunarsveita félagsins. Þar er einkum um að ræða sérsniðnar vátryggingalausnir sveitanna í samræmi við mismunandi þarfir þeirra, enbjörgunarsveitirnar sérhæfa sig margar hverjar til sértækra og oft áhættusamra verkefna.
Sjóvá hefur ávallt lagt mikla áherslu á forvarnir. Má í því sambandi nefna áherslu á aukið öryggi við meðferð skotelda um áramót með aukinni notkun öryggisgleraugna, þátttöku í starfi Slysavarnaskóla sjómanna í því skyni að draga úr vinnuslysum og eignatjónum, SafeTravel, þar sem fjöldi aðila tekur höndum saman til að bæta forvarnir og draga úr slysum í ferðamennsku og ferðaþjónustu, og að síðustu gagnvirkt Vindakort sem Sjóvá setti á laggir á netinu og sýnir ferðalöngum hættulega vindasama staði á landinu.