Starfsemi Íslandspósts er margþætt og hjá fyrirtækinu starfa margir ólíkir hópar, skrifstofufólk, bréfberar, bílstjórar og starfsfólk dreifingarmiðstöðvar og pósthúsa. Starfsumhverfi hópanna er mismunandi og því var mikilvægt að taka tillit til þess í fræðslunni.
Haldnir voru fyrirlestrar með hverjum starfshópi. Áhersla var lögð á virka þátttöku starfsfólks og að fá hugmyndir frá þeim um leiðir til þess að auka öryggi þeirra og fækka slysum. Helsta áskorun starfsfólks sem dreifir pósti til heimila og fyrirtækja eru hinar ólíku aðstæður sem eru til staðar hverju sinni, aðstæður sem erfitt er að hafa stjórn á. Það er því mikilvægt að fara yfir hvað starfsfólkið getur gert til að lágmarka áhættuna á slysum og tjónum og efla öryggis- og forvarnahugsun.
Sérfræðingar Sjóvár lögðu einnig áherslu á að starfsmenn nýti sér reynslu hvers annars og horfi gagnrýnið á vinnustaðinn til þess að koma í veg fyrir slys. Einföld atriði eins og lausir hlutir á gólfi sem geta valdið óhappi eða slökkvitæki sem búið er að byrgja fyrir eru atriði sem auðvelt er að hafa í huga þegar öryggi vinnustaðar er skoðað. Dæmi um verkefni sem farið var í framhaldi af vinnustaðaheimsókninni var yfirferð á aðgengi að slökkvitækjum í pósthúsum og merking á vatnsinntökum og staðsetningu þeirra var einnig skoðuð sérstaklega.
Íslandspóstur tileinkar öryggismálum eina viku á hverju ári. Tilgangurinn er að tryggja að öryggi, aðbúnaður og hollustuhættir í starfsumhverfinu séu settir í forgrunn a.m.k. árlega. Hugað er að sjúkrakössum, eldvörnum, innbrotavörnum og vinnustöðvar yfirfarnar svo eitthvað sé nefnt. Í framhaldi af heimsókn sérfræðinga Sjóvár hyggst Íslandspóstur leggja aukna áherslu á verklegar eldvarnaæfingar og tryggja að starfsmenn skoði reglubundið innihald öryggishandbókar Íslandspósts. Handbókin er vel sýnileg á öllum starfsstöðvum og skilgreinir m.a. viðbrögð við slysum og tjónum. Reynslan sýnir að þó svo að starfsfólk hafi starfað lengi á sama stað þá er ávallt ástæða til þess að yfirfara skipulag öryggismála og rétt viðbrögð. Flest slys er hægt að koma í veg fyrir og þau fyrirtæki sem leggja áherslu á öryggi starfsmanna og forvarnir uppskera fækkun slysa, tjóna og aukna starfsánægju.