Á dögunum hlaut Sjóvá, ásamt öðrum fyrirtækjum, viðurkenningu Stjórnvísi fyrir góða stjórnarhætti og um leið nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum.
Viðurkenningarnar voru veittar við hátíðlega athöfn á Nauthóli, að viðstöddum fulltrúum fyrirmyndarfyrirtækjanna en það eru Stjórnvísi, Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland sem veita viðurkenningarnar.
Að þessu sinni voru það 18 fyrirtæki sem voru metin Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum og þykja þau öll vel að nafnbótinni komin.
Í tilkynningu Stjórnvísi er fjallað stuttlega um hvað felst í góðum og ábyrgum stjórnarháttum:
„Samkvæmt hlutafélagalögum skulu vald og ábyrgð innan fyrirtækja skiptast í þrjá meginþætti, hluthafafund, stjórn og framkvæmdastjóra. Vald og áhrif hluthafa takmarkast við hluthafafundi en stjórnir félaga sækja umboð sitt til fundanna og fara með stjórn félaganna á milli fundanna. Það er síðan á ábyrgð stjórna félaganna að ráða framkvæmdastjóra (einn eða fleiri) og kalla til ábyrgðar varðandi rekstur þeirra. Framkvæmdastjórar bera síðan ábyrgð á daglegum rekstri félaganna í samræmi við stefnur og fyrirmælum stjórna þeirra.
Góðir stjórnarhættir snúast öðru fremur um að skipting valds og ábyrgðar sé með þeim hætti sem þrískipting hlutafélagaformsins gerir ráð, skýr mörk séu á milli vald- og ábyrgðarsviðs hvers þáttar og að aðilar hlutist ekki til um málefni sem fyrir eru á forræði annars aðila.
Fylgni við góða og ábyrga stjórnarhætti er talin styrkja innviði félaga og efla almennt traust gagnvart viðskiptalífinu.“
Viðurkenningin tekur mið af leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja, sem Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland hafa gefið út.