Á nýliðnu landsþingi Slysavarnafélagsins Landsbjargar var Sjóvá veitt viðurkenning félagsins, Áttavitann. Hana fékk Sjóvá fyrir stuðning sinn við starfsemi Landsbjargar.
Áttavitinn er sérstök viðurkenning sem Slysavarnafélagið Landsbjörg veitir fyrirtæki sem sýnt hefur félaginu sérstakan stuðning í störfum sínum.
Sjóva er aðalstyrkaraðili Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og hefur verið í um tuttugu ár.
"Sjóvá hefur veitt Slysavarnafélaginu Landsbjörg ómetanlegan stuðning um áraraðir og hefur lengi verið einn aðalstuðningsaðili félagsins. Hefur sá áralangi stuðningur gert Slysavarnafélaginu Landsbjörg kleift að sinna af krafti því mikilvæga starfi sem slysavarnir eru. Stuðningur Sjóvá við endurnýjun björgunarskipa er grunnurinn að því stóra og mikilvæga verkefni og Sjóvá því vel að þessari viðurkenningu komið." - Kristján Þór Harðarson, framkvæmdastjóri Landsbjargar
Til viðbótar við áralangan stuðning veitti Sjóvá Landsbjörgu styrk árið 2021 upp á 142,5 milljónir til kaupa á þremur nýjum björgunarskipum og eru tvö fyrstu skipin, Þór og Sigurvin, komin til sinna heimahafna í Vestmannaeyjum og Siglufirði.
Þriðja skipið er væntanlegt til landsins í sumar og verður með heimahöfn í Reykjavík.
"Við erum afar stolt af samstarfi okkar og Landsbjargar. Áttavitinn er góð viðurkenning á þessu samstarfi og við tökum auðmjúk á móti henni, en við lítum svo sannarlega á það sem okkar hlutverk að vera þáttakendur í samfélaginu. Styrkir okkar til Landsbjargar nýtast vel og því miður er það þannig að á Íslandi eru alltaf tilfelli þar sem þörf er á björgunarsveitum landsins. Það er okkur mikill heiður að fá að taka þátt í að gera þeirra starf sé eins gott og mögulegt er." - Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá.