Sjóvá hlaut í gær viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA). Alls voru veittar viðurkenningar til 93 fyrirtækja, 15 sveitarfélaga og 22 opinberra aðila úr hópi þeirra 247 þátttakenda sem hafa undirritað viljayfirlýsingu um að jafna kynjahlutfall í framkvæmdastjórnum.
Markmið Jafnvægisvogar um 40/60 kynjahlutfall í efsta stjórnendalagi var haft til hliðsjónar við matið. Stór hluti þeirra þátttakenda sem hafa skrifað undir viljayfirlýsingu Jafnvægisvogarinnar hafa náð góðum árangri á þessu sviði.
Sjóvá hefur hlotið viðurkenninguna sex sinnum eða öll árin sem hún hefur verið veitt. Í ár var metfjöldi viðurkenningahafa og aukning um 46% milli ára, sem er afar ánægjulegt. Jafnvægisvogin hefur fest sig í sessi sem hreyfiafl til góða verka og hvatning um að taka ákvörðun í jafnréttismálum.
Að hreyfiaflsverkefninu standa auk FKA, félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Creditinfo, Deloitte, Pipar\TBWA, RÚV, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjóvá.
Sjá nánar á vef Jafnvægisvogar FKA.