Umferðadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fékk í gær 6 myndavélar að gjöf frá Sjóvá. Gjöfin er veitt í tilefni af því að 50 ár eru liðin frá stofnun sérstakrar umferðardeildar og munu myndavélarnar verða notaðar af lögreglumönnum á bifhjólum.
Það var Lárus Ásgeirsson forstjóri Sjóvá sem afhenti Herði Jóhannessyni aðstoðarlögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu myndavélarnar við athöfn í gær. Lárus sagði við þetta tilefni að nauðsynlegt væri að umferðadeildin sé búin öllum helstu tækjum til að nýta við störf sín. „Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra að lögreglan geti unnið störf sín af nákvæmni og nýtt nýjustu tækni hverju sinni. Við vonum sannarlega að myndavélarnar komi að góðum notum við ykkar mikilvæga starf,“ sagði Lárus.
Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri sem veitti gjöfinni viðtöku fyrir hönd lögreglunnar, þakkaði fyrir góða gjöf og sagðist að sumu leiti líta á þessa gjöf sem viðurkenningu fyrir gott starf LRH. Hörður sagði einnig, „Það skiptir okkur miklu máli að eftir okkar starfi sé tekið og minnst á það sem vel er gert. Ég vona að samstarf okkar við Sjóvá verði gott áfram því öll vinnum við að því sama markmiði að aðstoða borgarana þegar vandi steðjar að“.
Gjöf þessi endurnýjar myndavélabúnað lögreglumanna á bifhjólum og það er von Sjóvá að þetta hjálpi til við að tryggja áframhald á faglegum vinnubrögðum.