Niðurstöður úr könnun VR um Fyrirtæki ársins 2024 voru kynntar við hátíðlega athöfn í Hörpu í gær.
Sjóvá er sjöunda árið í röð í 10 efstu sætum meðal stærri fyrirtækja og því Fyrirmyndarfyrirtæki 2024. Í ár fengum við þriðju hæstu einkunn sem við höfum fengið síðan mælingar hófust árið 2000.
Könnunin mælir stöðu á níu mikilvægum þáttum í starfsumhverfi okkar og var Sjóvá efst allra fyrirtækja á stjórnun, og ánægju og stolti, en einnig eru sjálfstæði í starfi og jafnréttismál meðal okkar sterkustu mælinga.
Undanfarin ár hafa þau fyrirtæki sem lenda í efstu fimm sætunum í sínum stærðarflokki fengið nafnbótina Fyrirtæki ársins en í ár ákvað VR að fækka þeim niður í þrjú efstu. Í ár munaði 0,001 stigi á okkur og fyrirtækinu í 3. sæti.
Fimm efstu fyrirtækin í flokki stærri fyrirtækja:
NetApp: 4,609
Límtré vírnet: 4,505
Garri: 4,456
Sjóvá: 4,455
Hekla: 4,451
Við fengum hinsvegar Fræðsluviðurkenningu VR, sem er ný viðurkenning og veitt einu fyrirtæki í hverjum stærðarflokki sem þykir skara fram í starfsþróun og símenntunartækifærum.
Allt þetta til að segja - við erum afar stolt af þessum niðurstöðum.
Í könnun á Fyrirtæki ársins er starfsfólk beðið um að leggja mat á nokkra lykilþætti í vinnuumhverfinu, hver þáttur fær einkunn frá 1 til 5 og saman mynda þær heildareinkunn fyrirtækisins. Svarhlutfall miðar við fjölda útsendra spurningalista fyrirtækis.