Miðstöð slysavarna barna hefur flutt í nýtt húsnæði að Hátúni 12 og hefur öll aðstaða verið endurbætt til muna. Af því tilefni framlengdi Sjóvá samning sinn um styrk og samstarf við miðstöðina. Það er Sjóvá sönn ánægja að leggja þessari starfssemi lið og stuðla þannig að áframhaldandi starfi og fræðslu um slysavarnir barna.
Herdís Storgaard ber hita og þunga af starfssemi Miðstöðvar slysavarna barna en þar eru haldin námskeið um slysavarnir barna og öryggi á heimilum en foreldrum og verðandi foreldrum er boðið endurgjaldslaust að koma á námskeið. Einnig hefur það færst í vöxt að afar og ömmur komi á námskeið sem er frábær þróun og sýnir hversu mikilvæg fræðsla um slysavarnir barna er og á ávallt erindi til allra aldurshópa. Miðstöðin sjálf er heimili þar sem hægt er að sýna hvernig við getum aukið öryggi með raunverulegum hætti.
Sjóvá lagði grunninn að starfsemi Miðstöðvar slysavarna barna með stofnun Sjóvá Forvarnahússins árið 2006 og er því stolt af því að sjá barnið vaxa og dafna nú undir sjálfstæðum formerkjum Miðstöðvar slysavarna barna. Forvarnir eru nátengd allri starfssemi Sjóvár og að styðja samfélagsleg verkefni.