Sjóvá er efst tryggingafélaga í Íslensku ánægjuvoginni 2021, fimmta árið í röð. Niðurstöður ánægjuvogarinnar voru kynntar í morgun og var Sjóvá efst tryggingafélaga með einkunnina 68,9. Íslenska ánægjuvogin mælir ánægju viðskiptavina með þjónustu sem fyrirtæki veita og er því um að ræða viðurkenningu sem við metum mikils.
Við tryggjum ánægðari viðskiptavini
Við erum þakklát fyrir að okkar viðskiptavinir séu ánægðari. Um árabil höfum við lagt áherslu á að veita framúrskarandi þjónustu, hvort sem það er til einstaklinga eða fyrirtækja, við sölu, ráðgjöf eða þjónustu. Þetta höfum við haft að leiðarljósi í allri þjónustu, hvort sem hún er veitt með stafrænum lausnum eða leiðum eða í útibúum okkar um land allt. Það er því afar ánægjulegt að sjá þessar áherslur okkar skila sér í ánægju viðskiptavina, fimmta árið í röð.
Um Íslensku ánægjuvogina
Íslenska ánægjuvogin er félag í eigu Stjórnvísi og er framkvæmdin í höndum Prósent. Markmiðið með mælingunni er sem fyrr segir að mæla ánægju viðskiptavina með þjónustu og gefa fyrirtækjum kost á að fá samræmdar mælingar á henni og þeim þáttum sem hafa áhrif á hana, s.s. ímynd, mat á gæðum og tryggð viðskiptavina.